Finnst skemmti­leg­ast að baka fyrir aðra

Elenora Rós Georgesdóttir er flinkari en flestir að baka.
Elenora Rós Georgesdóttir er flinkari en flestir að baka.

Hin eina sanna Elenora Rós Georgesdóttir hefur bakað sig inn í hjörtu þjóðarinnar en það eru færri sem vita að ástríða Elenoru er svo mikil að hún veit fátt skemmtilegra en að baka þegar hún er í fríi. Við lögðum fyrir hana nokkrar grjótharðar spurningar og ekki stóð á svörunum hjá Elenoru fremur en fyrri daginn.

Uppáhaldseldhúsáhald: Vigtin mín eða hrærivélin. Þetta er hvort tveggja eitthvað sem mig hafði langað í og fékk svo að gjöf og skiptir lykilmáli í bakstrinum mínum. Mér þykir mjög vænt um næði vigtina og hrærivélina.

Skemmtilegast að baka? Súrdeigsbrauð!! Algjör sökker fyrir súrdeigsbrauðum! Reyndar finnst mér eiginlega skemmtilegast að baka einhvað sem ég get gefið öðrum, eins og fyrir starfsfólkið í vinnunni eða þegar ég fer í viðtöl, alveg sama hvað það er. Það er eitthvað við það að vera búin að dunda sér við að baka eitthvað og leggja allt sitt hjarta í það og færa síðan einhverjum sem verður bæði þakklátur og glaður. 

Besti bakstursfélaginn? Heimsins besta litla bróðurdóttir mín sem ég sé ekki sólina fyrir. Ragnhildur Lilja elskar að baka með mér og þá sérstaklega fyrir afmælið sitt. Það eru mjög dýrmætar og skemmtilegar stundir sem kalla þó á mikla þolinmæði. 

Besta tónlistin til að hlusta á meðan þú bakar? Vó – þetta er erfið spurning. Ég er gömul sál þótt það sjáist ekki alltaf. Róleg seventies-tónlist fær mig alveg til að njóta mín í botn. Annars þarf ég stundum að gíra mig upp í að baka og þá er svona hávær stemningstónlist alveg málið, þetta á t.d. við á löngum vinnudögum og svona.

Ef þú mættir velja  hvort vildirðu heldur sleppa því að borða brauð eða bakkelsi? Jidúddamía!! Brauð, ef þetta væri upp á líf og dauða. Ég elska að búa til bæði brauð og sætabrauð en ég veit fátt betra en að borða gott brauð. Eitt það skemmtilegasta sem mér finnst við að fara á matsölustaði er brauðið sem maður fær áður en maður fær matinn. Ég var mikið á Spáni sem krakki og man eftir brauðbílnum sem keyrði í gegnum hverfið okkar eins og ísbíllinn. Það var algjörlega mitt uppáhald. Annars myndi ég örugglega stelast þegar enginn sæi til og fá mér hvort tveggja!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert