Uppskriftin sem toppar helgina!

Ljósmynd/María Gomez

Góður morgunverður um helgar er nokkuð sem ber að leggja metnað í og njóta. Hér er uppskrift frá Maríu Gomez á Paz.is sem er tilvalið að prófa enda er þessi uppskrift til háborinnar fyrirmyndar eins og allt sem María gerir.

„Eins og ég segi er afar auðvelt að skella í þessar brunchlokur og skemmtileg tilbreyting frá hinum hefðbundna brunch sem á það oft til að samanstanda af pönnsum, eggi og beikon.

Hér skiptir máli að velja gott brauð, en ég notaðist við kartöfluhamborgarabrauð sem er afar mjúkt og gott en einnig er hægt að nota briochebrauð eða annars konar hamborgarabrauð.

Beikoninu er hent í ofn og snúið smá upp á það og púðursykri sáldrað yfir sem gerir það stökkara og enn bragðmeira, ráð sem ég sá hjá Sólrúnu Diego og svínvirkar,“ segir María um þessa uppskrift.

Ljósmynd/María Gomez

Geggjaðar brunchlokur

  • 4 hamborgarabrauð (ég notaði kartöflubrauð og hægt er að nota líka briochebrauð)
  • 7 egg
  • 2 msk. rjómi
  • salt og pipar
  • ca 300 g beikon +
  • 4 cheddarostasneiðar
  • lambhagakál í potti
  • 3 stk. bufftómatar

Sósan

  • 2 dl Heinz-majónes
  • 1/2 tsk. sítrónusafi úr ferskri sítrónu (helst ekki úr belg)
  • 1/2 tsk. grófmalaður svartur pipar
  • 1/2 tsk. fínt borðsalt
  • 2 msk. ferskur graslaukur smátt klipptur

Aðferð

  1. Byrjið á að gera sósuna með því að hræra öllum innihaldsefnum vel saman og klippa niður graslaukinn ofan í og hræra
  2. Hitið svo ofninn á 200°C og setjið beikon á bökunarplötu með bökunarpappír á, mér finnst mjög gott að krulla það með því að snúa hvorn endann í sína átt og strá svo púðursykri yfir það en því má sleppa. Eldið í ofni þar til beikonið er stökkt og djúpur litur kominn á það
  3. Gerið eggjahræru á meðan með því að hræra saman eggjum og rjóma og salta og pipra
  4. Mér fannst gott að hræra sem minnst í hrærunni og gera svona millistig af ommelettu og eggjahræru sem ég skar svo í fjórar sneiðar til að setja á hvert brauð
  5. Setjið nú brunchlokuna saman með því að setja graslauksmajónes á botninn, svo kemur cheddarsneið, kálblað, tómatur, eggjahræra og beikon efst ofan á
  6. Smyrjið nú lokið af brauðinu líka vel með graslauksmajó og setjið í ofn við 180 C°í eins og 3-5 mínútur eða þar til osturinn er aðeins bráðinn

Punktar

Fyrir krakkana myndi ég bara skella góðri tómatssósu á brunchlokuna enda margir krakkar ekkert mikið fyrir majónessósur eða flókna rétti.

Ljósmynd/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert