Alessi, einn þekktasti húsbúnaðarframleiðandi heims, kynnti nú á dögunum nýjan kveikjara sem þykir ögrandi.
Ítalski framleiðandinn Alessi hefur hannað borðbúnað, skálar, diska og annað fínerí fyrir heimilið frá árinu 1921 - og kynnti nýverið kveikjara sem er eins og typpi í laginu. Þessi óvenjulegi gaskveikjari var fyrst hannaður árið 1993 og er þetta önnur útgáfa af vörunni sem endar í framleiðslu eftir árabil. Hönnuður kveikjarans er Guido Venturini, arkitekt, hönnuður og landkönnuður á sviði iðnhönnunar, innanhússhönnunar og arkitektúrs.
Kveikjarinn kallast Firebird 2.0, og er í raun rafmagnskveikjari sem framkallar nægilega mikinn hita til að kveikja á kerti – og því fylgir hleðslusnúra með til að hlaða hann. Á heimasíðu Alessi má sjá myndband þar sem kveikjarinn svífur í gegnum húsasund, með neonskiltum sem ýta undir kynferðislega spennu að mati margra - og hefur þótt ögrandi.