Fagurkerar landsins leynast víða og einn af þeim er Ingunn Þráinsdóttir sem nýverið tók eldhúsið sitt í gegn og við fengum að sjá fyrir-og-eftir-myndir af verkefninu.
Ingunn er grafískur hönnuður að mennt og starfar í Héraðsprenti á Egilsstöðum ásamt því að reka hönnunarfyrirtækið Mosi kósímosi. Eins er hún í starfsemi með eiginmanni sínum sem gengur undir nafninu Onwegogo – en það er ljósmynda-, dróna- og samfélagsmiðlaþjónusta. Ingunn var á leiðinni í mastersnám í Flórens á Ítalíu núna í haust en þurfti að fresta því vegna Covid-19.
Það er nóg á könnunni hjá Ingunni, en við spurðum hana nánar út í eldhúsið á heimilinu sem hefur fengið frábæra yfirhalningu. En þau hjónin fluttu í húsið sem leigjendur árið 2015 og keyptu síðan húsið ári seinna. Hér búa hjón með fjóra unglinga og hund sem telst sem fimmta barnið í fjölskyldunni.
Í hverju fólust breytingarnar?
Það fyrsta sem við gerðum var að skipta um gólfefni, við keyptum gólfefni hjá Þ. Þorgrímsson og lögðum það sjálf – gamla gólfefnið var ónýtur korkdúkur. Eftir það máluðum við innréttinguna hvíta og skiptum um höldur. Innréttingin er mjög góð í grunninn, og við sáum enga ástæðu til að rífa hana alla í burtu. Við tókum niður stóran efri skáp sem eiginlega klauf eldhúsið í tvennt í miðju, þegar hann var farinn opnaðist rýmið svakalega og eldhúsbekkurinn varð að miklu betra vinnurými. Til að fá geymslupláss í stað efri skápsins sem við rifum niður keyptum við háan og mjóan dökkan skáp hjá Ikea og settum á vegg þar sem ísskápurinn hafði staðið. Ísskápurinn fór inn í aðliggjandi þvottahús og þeir eru tveir þar núna sem er algjör snilld. Okkur fannst hvít innnrétting með hvítum flísum á milli skápa of einsleitt og fundum æðislegar flísar í Vídd sem við settum í staðinn. Við settum svo ný ljós og máluðum alla veggi, máluðum gólflista, veggofn og svo bitana í loftinu. Nýtt eldhúsborð og stólar voru keypt í Rúmfatalagernum.
Hvað tóku breytingarnar langan tíma og fenguð þið einhverja utanaðkomandi aðstoð?
Við erum búin að vera að gera þetta í skrefum frá árinu 2017, að mig minnir. Við höfum gert allt sjálf nema pabbi minn kom að flísalögninni.
Hverju vilduð þið ná fram með breytingunum?
Létta á eldhúsinu, lýsa það upp og gera betri vinnuaðstöðu án þess samt að rífa allt út og setja allt nýtt. Við vildum líka hafa það hlýlegt og spennandi þar sem eldhúsið er yfirleitt hjarta hvers heimilis.
Liturinn í eldhúsinu er mjög fallegur – hvað geturðu sagt okkur um hann?
Hann heitir Sjöglött og er úr Húsasmiðjunni. Ég elska skandinavískar litapallettur og mig langaði að bæta lit inn í dökkbrúna, hvíta og gráa þemað sem var komið inn. Gyllti liturinn inni í loftljósunum bætir svo hita við alla formúluna – gyllt og ljósblátt er æðislegt saman.
Ég kalla útlitið á þessu eldhúsi „Scandi chic“, þar sem þetta er nokkurs konar blanda af scandinavian og country chic-stíl.
Er þetta fyrsta eldhúsið sem þið gerið upp?
Já, þetta er okkar fyrsta eldhús en örugglega ekki það síðasta. Við höfum tekið aðra hluta hússins í gegn líka en ekki alveg svona dramatískt.
Hvaða ráð myndirðu gefa þeim sem eru í sömu hugleiðingum?
Fylgja eigin tilfinningu í stað þess að kópera, gera rými sem þeim sjálfum finnst gott að lifa í. Ef fólk treystir sér ekki í stærri framkvæmdir þá endilega fá iðnaðarmenn með sér í lið. Þeir eru líka oft uppfullir af sniðugum lausnum.