Það er hún Valla hjá GRGS.is sem á heiðurinn að þessari grísku fiskipönnu sem ætti engan að svíkja. Sjálf segir Valla að rétturinn sé algjör bragðsprengja.
„Það er hægt að nota hvaða hvíta fisk sem er en hér notaði ég fallegan þorsk. Það er hægt að nota það grænmeti sem er til en það er alveg bráðnausynlegt að hafa fetaostinn, hvítlauk og svartar ólífur," segir Valla um réttinn.
Grísk fiskipanna með feta og ólífum
Aðferð:
1. Skerið fiskinn í bita og setjið til hliðar.
2. Skerið grænmeti og steikið í olíunni á pönnu sem má fara í ofn.
3. Takið grænmetið af pönnunni og bætið aðeins olíu á pönnuna ef þarf, hér væri snjallt að setja smá af fetaolíunni.
4. Raðið fisknum á pönnuna og kryddið.
5. Snúið við fiskbitunum og dreifið fiskikraftinum jafnt yfir, setjið steikta grænmetið yfir fiskinn. Þar næst kemur fetaosturinn og ólífurnar. Hellið rjóma yfir og stráið osti yfir herlegheitin.
6. Setjið pönnuna undir grillið í ofninum þar til osturinn er orðinn gylltur.
7. Berið fram með nýjum kartöflum og góðu brauði ef vill.