Algjörlega einstök Elenora

Elenora Rós Georgesdóttir
Elenora Rós Georgesdóttir

Hún er einungis 19 ára gömul en strax þegar sest er niður með Elenoru Rós Georgesdóttur verður manni ljóst að þarna er engin venjuleg kona á ferðinni. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún ýmsa fjöruna sopið og með sínu einstaka viðhorfi til lífsins hefur hún sigrast á áskorunum, barist fyrir draumum sínum og náð að skapa eitthvað algjörlega einstakt. Hún er þessa dagana að gefa út sína fyrstu bók sem heitir einfaldlega BAKAÐ með Elenoru Rós og það er morgunljóst að vænta má mikils af þessari kjarnorkukonu sem virðist víla fátt fyrir sér.


Ást Elenoru á bakstri er nokkuð augljós en hún starfar sem bakaranemi í Bláa lóninu en þar á undan var hún í Brauð & co. Hún segist vera heppin að fá að læra af þeim bestu og ekki síst heppin að fá að starfa við það sem hún elskar. Ástæða þess að hún gefur út sína fyrstu bók er líka fremur skemmtileg en það ævintýri hófst þegar Elenora mætti í viðtal í Ísland vaknar á K100 þar sem hún heillaði alla upp úr skónum. Einn þáttastjórnenda, Jón Axel, hafði í kjölfarið samband við hana og spurði hvort hún hefði einhvern tíma íhugað að gefa út bók. Hann kom henni í samband við Edduna og nú, hálfu ári seinna, er afraksturinn að líta dagsins ljós.

„Ég hafði enga trú á að þær myndu hafa samband aftur þannig að þegar ég fékk staðfestingu á að það ætti að gera bókina eiginlega trylltist ég. Ég var þá þegar búin að vera innilokuð lengi út af Covid og hafði nýtt tímann vel í að stúdera allt sem viðkom súrdeigsbrauðsgerð og vísindunum á bak við það. Ég hafði unnið með súrdeigið í mörg ár en þarna fór ég á bólakaf sem var einstaklega skemmtilegt og lærdómsríkt,“ segir Elenora. Bókin sé hugsuð fyrir mjög breiðan hóp enda bæði að finna í henni ítarlegar leiðbeiningar um súrdeigsbakstur og girnilegar brauðuppskriftir sem og sætabrauðsgerð, kökubakstur og gamaldags íslenskt bakkelsi. „Ég hef alltaf unnið í frekar töff og „rustic“ bakaríum og ólst upp við gamaldags mömmubakstur og þessi bók er svolítil sameining af því öllu. Það mætti eiginlega segja að ég og mín stutta ævi sameinist í þessari uppskriftabók.

Hún hentar sérstaklega þeim sem vilja fá nýjar og ferskar uppskriftir, þeim sem vilja læra hvernig á að gera þetta gamla góða sem við þekkjum öll og hún hentar heldur betur súrdeigsáhugafólki Íslands. Í bókinni eru súper auðveldar uppskriftir en einnig flóknari uppskriftir fyrir þá sem eru lengra komnir. Allar uppskriftirnar eru mjög vel útskýrðar og vel uppsettar og ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í bókinni enda er bókin einir fimm kaflar með kennslu fremst í bókinni og tæplega 170 blaðsíður að lengd.

Kolféll fyrir skoskum plötusnúð

Elenora á rætur að rekja bæði til Íslands og Skotlands en faðir hennar er skoskur. „Mamma mín fer eitt haustið í brúðkaup hjá bróður sínum og á þeim tíma var pabbi minn ágætlega vinsæll plötusnúður í Skotlandi. Mér finnst það mjög fyndið því ég hef alltaf þekkt pabba sem gamlan kall sem finnst hann sjálfur fyndnastur í heimi og elskar að gera mig vandræðalega. En jæja, mamma fer í brúðkaup þar sem hann er að sjá um tónlistina. Þau taka þar léttan dans og nokkru síðar kemur pabbi í heimsókn til Íslands til að hitta mömmu. Eftir það varð ekki aftur snúið og þau hafa verið saman síðan þá.“

Elenora segir að bernska sín hafi verið dásamleg og að hún búi að því að koma úr samrýndri fjölskyldu sem stendur þétt saman. Elenora fæddist með fæðingargalla sem heitir Omphalocele en þá eru líffærin útvortis. „Ég fer strax í aðgerð við fæðingu og gekk hún mjög vel. Ég var þó greind með vitlausan sjúkdóm við fæðingu og fann út þegar ég var orðin unglingur að ég væri með Omphalocele eftir að hafa lesið mér endalaust til á netinu. Ég var frekar heilbrigð sem barn en þó alltaf lítil og létt. Það var ekki fyrr en á unglingsárunum sem ég fór að finna fyrir verkjum og kvillum en ég er einmitt núna í sterkri lyfjameðferð út af smávegis veikindum en kippi mér ekki mikið upp við það. Þegar ég er í áttunda bekk byrjaði ég að fá svakalega magakrampa. Ég er sífellt slöpp og verð ótrúlega ólík sjálfri mér. Ég hætti að geta borðað ákveðna fæðu og við vissum hvorki upp né niður. Ég hafði af og til verið slöpp sem krakki en ekkert þessu líkt. Ég slapp mjög vel undan þessum fæðingargalla en börn sem fæðast með hann geta til dæmis orðið langveik eða lömuð. Í kjölfarið á þessum veikindum á unglingsárunum greinist ég með magabólgur, alvarlega sýkingu í maga og gallsteina sem endaði með því að gallblaðran mín var fjarlægð, ég kviðslitnaði, tók illa upp vítamín og þurfti að fá bæði járn og b-12, annaðhvort í æð eða sprautuformi. Vegna vítamínskorts leið reglulega yfir mig og svo var ég einnig eina og jafnvel fyrsta manneskjan á Íslandi með tvær starfandi, stórar og heilbrigðar lifrar,“ segir Elenora af fullkomnu æðruleysi.

Mótlæti og persónulegir sigrar

Lífið er allskonar eins og við vitum öll og Elenora segist alltaf hafa verið vinmörg og hamingjusöm sem hún sé þakklát fyrir. „Ég lenti þó af og til í því að það var gert grín að naflanum mínum þegar ég var á leið í íþróttir eða í sund. Ég á mjög sára minningu um mig þegar ég kom grátandi heim úr skólanum einn daginn og vildi lýtaaðgerð á naflanum mínum. Ég er sem sagt með heimatilbúinn nafla eins og læknarnir mínir og mamma kalla hann en út af því að líffærin mín voru utan líkamans þegar ég fæddist þá var ég ekki með nafla. Mamma reyndi vel og lengi að sannfæra mig um að ég væri einstök og fullkomin eins og ég væri en það dugði ekki. Læknarnir mínir höfðu alltaf sagt mér að ég ætti rétt á að láta laga hann seinna svo ég gerði það og sé alls ekki eftir því,“ segir Elenora brosandi. Henni hefur oft verið líkt við fiðrildi eða jafnvel sjálfa Mary Poppins enda framúrskarandi jákvæð og hvetjandi í öllu sem hún gerir. Hún segir þó að það hafi ekki alltaf verið þannig. „Ég varð fyrir miklu mótlæti þegar ég var í tíunda bekk sem hafði mikil áhrif á mig. Ég fór úr því að vera glöð og hamingjusöm yfir í að vera mjög brotin. Við tóku erfiðir tímar þar sem elsku hugrakka og sterka mamma mín tók á honum stóra sínum og hægt og rólega og með ótrúlega góðri hjálp frá góðu fólki tókst mér að byggja mig upp á ný. Ég fór á Dale Carnegie-námskeið sem breytti lífi mínu og út frá því hófst vegferðin sem ég er á í dag. Ég fór að trúa því að ég gæti allt sem ég ætlaði mér og upp frá því hef ég umkringt mig með fólki sem hefur jákvæð og hvetjandi áhrif á mig. Það má segja að ég hafi endurfæðst að einhverju leyti þar því þetta var vendipunktur í lífi mínu. Þjálfararnir mínir, þær Sylvía og Eydís, bókstaflega breyttu lífi mínu með sínum heilsteyptu, fallegu og góðu ráðum um lífið. Að endurheimta sjálfstraustið var svo dýrmætt og í kjölfarið fer ég að baka. Eydís taldi mér trú um að ég gæti allt sem ég ætlaði mér og Sylvía pantaði fyrstu kökuna hjá mér. Það var ómetanlegt.“

Elenora segist alin upp við bakstur og segir að mamma sín sé framúrskarandi bakari. „Uppáhaldsminningarnar mínar úr æsku eru að hlaupa heim til mömmu eftir skóla og þá var hún búin að baka eitthvað gott fyrir mig í kaffinu. Bakstursáhuginn kom því snemma enda ekkert betra en lyktin af nýbökuðu bakkelsi heima hjá sér. Ég fór fljótlega að baka kökur og skreyta, kaupa allskyns bakstursdót og horfa á allskyns þætti. Það var svo eftir alla hvatninguna sem ég fékk á Dale Carnegie að ég skrái mig á matvælabraut í MK og byrja þar í bakaranum strax næsta haust.“

Fríkar út þegar frægt fólk fylgir henni

Elenora hefur verið vinsæl á samfélagsmiðlum og hefur fylgjendafjöldi hennar vaxið jafnt og þétt. Hún segir að það hafi þó gerst eiginlega óvart og segir að boltinn hafi byrjað að rúlla eftir fyrsta viðtalið hennar á K100. „Ég fer þar inn ofboðslega stressuð en gleymdi mér síðan alveg því það var svo gaman. Þegar ég geng út hafa um 500 nýir fylgjendur bæst við. Í kjölfarið birtist grein á mbl.is sem skólinn minn og margir fleiri deila. Mér brá ólýsanlega en ég tók þessu samt fagnandi. Eftir það hélst fylgjendahópurinn fremur óbreyttur þangað til bókaferlið byrjaði. Þegar ég tilkynnti síðan að ég væri að gefa út bók sprakk allt! Þá voru svo margir að deila fréttinni, fréttin fór á mbl.is, í Morgunblaðið og svo var viðtal við mig á K100. Núna, bara síðan bókaferlið byrjaði eða síðan í apríl hafa um 1.200 fylgjendur bæst í hópinn. Það er alltaf ánægjulegt að sjá nýtt fólk streyma inn og stundum fríka ég út þegar þekktir einstaklingar byrja að fylgja mér,“ segir Elenora en hún er þekkt á Instagram sem Bakaranora.

Allir geta bakað ef uppskriftin er góð

Að baka eru heilmikil vísindi og oft hefur verið sagt að það sé ekki á allra færi að baka. Elenora er allsendis ósammála því. „Bakarameistarinn minn sagði mér einu sinni að á bak við alla góða bakara væru góðar uppskriftir. Flóknara væri að ekki. Svo lengi sem fólk er með góðar uppskriftir geta allir bakað. Með rétt hráefni, góð tæki og tól og nákvæma bragðgóða uppskrift er ekkert mál að baka eitthvað ljúffengt. Þetta getur tekið tíma og þolinmæði en það er svo sannarlega þess virði á endanum,“ segir hún en þeir sem þekkja hana vita að það er bráðfyndið þegar eitthvað misheppnast hjá henni í bakstrinum. Elenora sé þekkt fyrir gefa tilfinningum sínum lausan tauminn og því sé hún óhrædd við þær allar. Spurð að því hversu miður sín hún verði ef eitthvað misheppnast segir hún að það fari eftir ýmsu.

„Það fer algjörlega eftir því hvað ég er að búa til og hversu illa það misheppnast. Erum við að tala um einhvað sem ég var mjög fljót að búa til og get reddað eða erum við að tala um eitthvað sem ég lagði hjartað í, eyddi mörgum klukkutímum í og var svo spennt fyrir. Ef það er þetta seinna sem á við þá byrja ég yfirleitt á að hágráta,“ segir Elenora og það er ekki annað hægt en að dást að því hvað hún er opin og einlæg. „Ég er svakalega tilfinningarík og hef tamið mér það að leyfa öllum tilfinningum að koma alltaf þegar þær vilja. En svo þegar ég er búin að syrgja þá reyni ég aftur. Ég reyni aftur og aftur, rýni í það sem fór úrskeiðis og reyni þar til þetta heppnast. Þannig var ferlið með uppskriftirnar í bókinni, ég gerði þær aftur og aftur þar til þær voru nákvæmlega eins og ég vildi. Ég get verið mjög þrjósk og er ekki þekkt fyrir að gefast upp og þá sérstaklega ekki þegar kemur að bakstri."

- - -

Bókin kemur í flestar verslanir um helgina auk þess sem hægt er að panta hana á edda.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert