Hér eru hjúpaðir graskerskleinuhringir að koma úr ofninum í boði Snorra Guðmunds hjá Matur og myndir. Það verður ekki haustlegra meðlætið með kaffinu en þetta.
„Undirstaðan í þessari uppskrift er hreint graskersmauk frá Libby´s og fæst það í Costco - annars er Hagkaup eða Fjarðarkaup vænlegast til vinnings. Í stað þess að djúpsteikja þessa kleinuhringi þá eru þeir bakaðir í ofni í sérstöku kleinuhringjaformi sem fæst í Allt í köku, en ég hef líka séð það til í Hagkaup.”
Graskerskleinuhringir í boði Snorra (22-24 stk.)
- Grænmetisolía, 100 g
- Egg, 3 stk
- Sykur, 250 g
- Hlynsýróp, 3 msk
- Graskersmauk, 340 g
- Kanill, 1 tsk
- Engiferduft, 1/4 tsk
- Múskat, 1/4 tsk
- Salt, 1,5 tsk
- Lyftiduft, 1,5 tsk
- Hveiti, 230 g
- Forhitið ofn í 170°C með yfir og undirhita.
Aðferð:
- Hrærið saman öll hráefnin fyrir utan hveiti með handþeytara þar til allt hefur samlagast.
- Hrærið hveitinu saman þar til það hefur samlagast blautblöndunni. Varist að ofhræra blönduna með hveitinu.
- Smyrjið kleinuhringaformin með olíu svo kleinurhingirnir losni auðveldar úr formunum.
- Fyllið mótin sirka 3/4 leið upp af deigi og bakið í miðjum ofni í 15 mín eða þar til tannstöngull kemur hreinn úr miðju kleinuhringjanna. Látið kólna í nokkrar mín og losið þá úr formunum.
- Veltið upp úr kanilsykri og berið fram strax eða hyljið með hreinu eldhússtykki þar til skömmu áður en bera á fram og veltið þá upp úr kanilsykri.