Kebabáhugamaðurinn Des Breakey frá Manchester ætlar að borða 60 skammta af kebab á einum mánuði í góðgerðarskyni fyrir 10 ára dóttur sína sem berst við sjaldgæfan sjúkdóm.
Allur ágóðinn mun renna til Nerve Tumors UK, en Des Breakey vonast til að ná 1.000 pundum fyrir samtökin sem eru hans hjartans mál. Des er óhræddur við að takast á við áskorunina, enda borðar hann meira kebab en flestir sem hann þekkir og hefur alla tíð gert. Þegar hann áttaði sig á því að hafa óvart borðað 39 kebabskammta á 28 daga tímabili hvöttu félagar hans hann til að ganga enn lengra. Þá hugsaði hann með sér að ef út í það færi væri allt eins hægt að gera það í góðgerðarskyni.
Des segist ekki vita hversu margar kaloríur hann muni innbyrða þennan mánuð sem áskorunin stendur yfir, en hann hefur ekki miklar áhyggjur af afleiðingunum – enda allt gert fyrir verðugt málefni.