Stökkar rækjur með sriracha-majó

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hér eru á ferðinni stökkar rækjur sem búið er að baka í ofni og svakalega góð sriracha-majóídýfa sem fór svona undurvel með þeim. Uppskriftin er úr smiðju Berglindar Heiðarsdóttur á Gotteri.is sem segir rækjurnar tilvaldar sem forrétt eða létta máltíð. Þær gætu einnig verið hluti af smáréttahlaðborði ef þið eruð með veislu, svona þegar það má halda veislur að nýju.

Stökkar rækjur

  • Um 600 g tígrisrækja (ósoðin)
  • 70 g Panko-rasp
  • 40 g gróft kókosmjöl frá Til hamingju
  • 1 tsk. salt
  • 2 egg (pískuð)
  • 60 g hveiti
  • salt, pipar og hvítlauksduft

Aðferð:

Hitið ofninn í 170°C og skolið og þerrið rækjurnar.

Blandið saman raspi og kókosmjöli og dreifið úr því í ofnskúffu, ristið í ofninum í 5-7 mínútur þar til það fer aðeins að gyllast.

Takið úr ofninum, blandið saltinu saman við og hækkið ofninn í 210°C.

Veltið rækjunum þá upp úr hveiti sem búið er að krydda til með salti, pipar og hvítlauksdufti, dustið umframmagn af, veltið upp úr eggi og því næst Pankoblöndu.

Raðið á ofngrind (gott að hafa skúffu undir til að grípa rasp sem hrynur af) og bakið í 12-15 mínútur eða þar til rækjurnar verða vel gylltar.

Berið fram með sriracha-majó.

Sriracha-majó

  • 160 g Hellmann-majónes
  • 30 g sriracha-sósa
  • 1 tsk. límónusafi

Aðferð:

Blandið öllu vel saman og kælið þar til bera á fram með rækjunum.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert