Opna nýja mathöll í Borgartúni

Ágúst Sverrir Daníelsson, einn af eigendum BORG29, og Karitas Sveinsdóttur …
Ágúst Sverrir Daníelsson, einn af eigendum BORG29, og Karitas Sveinsdóttur og Hafsteini Júlíussyni hjá HAF STUDIO sem hanna staðinn. Ljósmynd/Aðsend

Mathallir eru algjörlega málið ef marka má vinsældir þeirra og tilkynnt var í dag að ný mathöll myndi líta dagsins ljós í febrúar 2021.

Mathöllin verður til húsa í Borgartúni 29 og hefur hlotið nafnið BORG29. Hún mun hýsa níu veitingastaði og sælkeraverslun.

Að sögn Ágústs Sverris Daníelssonar, eins eigenda nýju mathallarinnar, er um að ræða spennandi og metnaðarfullt verkefni sem frábær hópur kemur að.

„Í BORG29 verður hægt að fá góðan morgunmat, hádegismat og kvöldmat og þess á milli getur fólk sest niður með drykk í góðra vina hópi. Markmiðið er að bjóða upp á fjölbreyttan og ljúffengan mat í fallegu og notalegu umhverfi,“ segir Ágúst og segir að fyrirmyndirnar séu sóttar til Norðurlandanna og víðar í Evrópu. „Borgartún er frábær staðsetning en þangað sækja þúsundir fólks vinnu og allt í kring eru fjölmenn hverfi.“

Búið er að velja átta af þeim níu veitingastöðum sem koma til með að starfa í BORG29 og því er ennþá eitt laust pláss.

Hönnun mathallarinnar er í höndum HAF STUDIO en Karitas Sveinsdóttir, annar eigenda, segir verkefnið mjög spennandi og skemmtilegt. „Við hjá HAF STUDIO höfum fengið fullt traust til þess að koma með nýja og ferska strauma hvað varðar útlit og stemningu,“ segir Karitas og bætir við að einn af útgangspunktunum í hönnuninni hafi verið að forðast að horfa á þetta sem hefðbundna mathöll heldur frekar skapa glæsilegan samkomustað þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi og láta sér líða vel.“ 

Mikið verður lagt upp úr góðri hljóðvist, lýsingu og loftun. Dökk loft og veggir skapa notalega stemningu í rýminu sem og lágstemmd litapalletta sem blandast vel við hágæðaefni svo sem leður, eik og stál. Þannig ná þessir ólíku veitingastaðir að njóta sín hver fyrir sig og skapa góða samræmda heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert