Minnsta kaffihús á Íslandi

Minnsta kaffihús á Íslandi er ekki bara lítið og sætt …
Minnsta kaffihús á Íslandi er ekki bara lítið og sætt - því þú mátt líka borða það. mbl.is/Melabúðin

Smáframleiðandinn „Minnsta kaffihús á Íslandi“ hefur sitt annað ár í framleiðslu á piparkökuhúsum sem hægt er að hengja á bolla- eða glasbrún. Rannveig Ásgeirsdóttir, sem stendur á bak við framleiðsluna, segir hugmyndina hafa kviknað við útskrift sonar síns fyrir nokkrum árum, en þá var boðið upp á þessi pínulitlu hús með kaffinu og þau þurftu að vera nógu smá til að passa á mokkabolla.

Hún bjó því til örlítið pappamót í þessum tilgangi og skar kökurnar út með skurðhníf. Þessi aðferð er enn notuð svo það er mikið af tíma, þolinmæði og ást sem fer í örsmáu piparkökuhúsin, enda teljast þau til matarhandverks. Árið 2019 fékk Minnsta kaffihús á Íslandi byr undir báða vængi með boði á Matarmarkaðinn í Hörpu svo þá var ekkert annað í stöðunni en að útvega leyfi til framleiðslu og hefjast handa. Þau voru ófá veisluborðin sem státuðu af þessum húsum í fyrra og meira að segja flutt út fyrir landsteinana til að gleðja fjölskyldur erlendis þau jólin.

Þetta árið tekur Minnsta kaffihúsið næsta stökk og mun verða í sölu í nokkrum verslunum; Gott og blessað í Hafnarfirði, Litlu hönnunarbúðinni í Hafnarfirði, Litlu garðbúðinni á Selfossi og síðast en ekki síst Melabúðinni í Vesturbæ Reykjavíkur.

Kökurnar eru framleiddar eftir 40 ára gamalli fjölskylduuppskrift sem hefur verið aðlöguð og inniheldur hvorki egg né mjólk og hentar því fyrir veganlífsstíl og þá sem eru með eggja- eða mjólkuróþol.

Um takmarkað upplag verður að ræða og því eins gott að tryggja sér þessi litlu fallegu hús, þau eru fullkomin gjöf fyrir þá sem eiga allt – sannkölluð upplifun. Þau bíða þess að prýða kaffi- eða kakóbolla eða mjólkurglas heima hjá þér, því það er ekkert kaffihús minna en þú, bollinn þinn og kaka til að gæða sér á á uppáhaldsstaðnum á heimilinu þínu.

Ótrúlega skemmtileg hugmynd hjá Rannveigu, sem segir kökurnar vera framleiddar …
Ótrúlega skemmtileg hugmynd hjá Rannveigu, sem segir kökurnar vera framleiddar eftir 40 ára gamalli fjölskylduuppskrift. mbl.is/Rannveig Ásgeirsdóttir
mbl.is/Rannveig Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert