Sem hluti af sjálfbærum breytingum hefur Ikea í Danmörku ákveðið að setja á laggirnar endurvinnsluþjónustu sem kynnt verður viðskiptavinum á svokölluðum „svörtum föstudegi“.
Hugmyndin felst í því að viðskiptavinir geta nú selt húsgögnin sín aftur til Ikea og þannig lengt líftíma vörunnar. Meiri og meiri vitundarvakning er orðin fyrir endurvinnslu og umhverfinu, og samkvæmt fréttatilkynningu frá fyrirtækinu vill það sýna metnað sinn í verki með því að hjálpa fólki að endurvinna vörur sínar. Þannig getur Ikea komið af stað hringrás og fólk fær meira rými til að taka sjálfbærar ákvarðanir. Það sem Ikea kaupir af þér verður selt áfram til viðskiptavina - þá bæði húsgögn og stærri innréttingar eins og eldhús.
Ikea hefur það markmið að verða að öllu leyti umhverfisvænt fyrirtæki fyrir árið 2030. Þeir nota nú þegar eingöngu rafbíla og með nýja appinu þeirra, er kallast „Better Living“, færðu helling af gagnlegum og sjálfbærum hversdagsráðum.