Ný þrívíddarhönnun frá Ísak Winther

Ísak er vöruhönnuður og grafískur hönnuður og starfar sem Creative …
Ísak er vöruhönnuður og grafískur hönnuður og starfar sem Creative Director hjá Pipar\TBWA auglýsingastofu. Mbl.is/Ísak Winther

Við fögnum íslenskri hönnun í allri sinni mynd. En nýverið komu skurðarbretti á markað, hönnuð í þrívídd af Ísaki Winther – og eru hvert öðru fallegri.

Ísak er vöruhönnuður og grafískur hönnuður og starfar sem Creative Director hjá Pipar\TBWA auglýsingastofu. Hann er alltaf að hanna eitthvað í tvívídd eða í þrívídd, hvort sem hann er í vinnunni eða ekki. Við náðum tali af Ísak sem fræddi okkur nánar um nýjustu vöruhönnun sína sem framleidd er á Íslandi.

Segðu mér frá Dæmond, formið er fremur óvenjulegt - hvernig kom þessi hugmynd til? 
Ég hef verið að leita mér að mínu myndmáli/formi í mörg ár. Hef verið undir áhrifum snillinga eins og til dæmis Piet Hein og súperelypsuforminu hans sem hann endurtekur og endurtekur í gegnum sína hönnun. Svo datt ég niður á geómetrískt form fyrir nokkrum árum síðan, sem ég var dálítið að vinna með en var ekki nógu sáttur við. Svo er það í lok síðasta árs sem ég er að brjóta heilann yfir þessu, þá geri ég litla tilfærslu og úr varð Dæmond formið. Það kviknaði á ljósaperu þá!

Eru brettin til í mörgum stærðum, áferðum og gerðum?
Núna eru brettin til í þremur stærðum úr við og þremur stærðum úr steini. Öll form eru unnin út frá ferhyrningi nema nýjasta afurðin, sem er steinabretti, en það er unnið út frá átthyrningi. Þetta er allt mikil stærðfræðiformúla hjá mér, en ég get verið soldið fastur í formúlum.

Eru brettin þín sérstakari en önnur sambærileg?
Það eru til óteljandi gerðir fallegra skurðarbretta og erfitt að meta hvort eitthvað sé sérstakara en annað. En ég hef fengið að heyra að þetta sé eitthvað alveg nýtt og öðruvísi. En fyrir utan að vera falleg fyrir augað, þó ég seg sjálfur frá, þá eru þau mjög praktísk á svo marga vegu. Til dæmis er þægilegt að ná taki á þeim, það er hægt að koma hendinni undir hornin til að skúbba mylsnum og slíku af brettinu. Svo standa þau svo skemmtilega beint þegar þeim er stillt upp á rönd, sem virðist næstum vera sjónhverfing þar sem línurnar í brettinu eru á ská. En þær eru í raun, beint á ská.

Ertu með bretti í vörulínunni þinni sem passa undir jólasteikina?
Nú eru steikur landsmanna mjög fjölbreyttar. Hamborgarhryggur passar vel á stóra brettið á meðan margir nota langa brettið fyrir nautalund. Svo henta litlu brettin vel fyrir ostana. Og streinabrettin henta fyrir svo margt annað en mat. Það liggur alveg í augum uppi að það dugar ekki að eiga bara eina týpu.

Hvernig notar þú brettin og áttu þitt uppáhalds?
Stóra brettið er mitt „go to“ bretti þegar ég er í eldhúsinu. Langa brettið er samt mikið notað til að bera fram brauð og kjöt, smörrebröd eða sætindi. Ég á erfitt að gera upp á milli barnanna minna.

Hvar er hægt að kaupa vörurnar þínar?
Viðarbrettin og steinabrettin eru til í Epal. Steinabrettin eru unnin með Steinsmiðjunni Rein – en þeir bjóða upp á, að þegar keyptur er steinn í borðplötu og tekið út fyrir vaski eða helluborði, þá sé hægt sé að láta gera bretti úr afskurðinum í stað þess að láta hann fara til spillis.

Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?
Fylgist bara með Dæmond HÉR - það er margt í farvatninu.

Viðarbrettin eru einstaklega falleg.
Viðarbrettin eru einstaklega falleg. Mbl.is/Ísak Winther
Vörulínan kallast Dæmond og er fáanleg í Epal.
Vörulínan kallast Dæmond og er fáanleg í Epal. Mbl.is/Ísak Winther
Einstakt og smart! Þrívíddarform í öllum brettunum sem eru íslensk …
Einstakt og smart! Þrívíddarform í öllum brettunum sem eru íslensk hönnun frá toppi til táar. Mbl.is/Ísak Winther
Mbl.is/Ísak Winther
Mbl.is/Ísak Winther
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert