Ertu búin/n að kaupa jólatré, eða ertu kannski með gervitré í ár? Það jafnast þó ekkert á við greniilminn sem umlykur stofuna á aðventunni. Og hér eru bestu ráðin til að viðhalda jólatrénu sem best.
Til að forðast það að jólatréð þorni of fljótt og fari að missa barrið, þá eru nokkur atriði sem þú getur haft á bak við eyrað.
- Þú mátt helst ekki fara með jólatréð beint inn í stofu eftir að hafa flutt það heim. Þetta á sérstaklega við ef þú hefur fellt tréð sjálf/ur. Jólatré þurfa smá aðlögunartíma, rétt eins og svo margt annað sem þarf að venjast nýju umhverfi.
- Jólatré missa barrið þegar þau þorna. Þess vegna er afar mikilvægt að láta tréð standa á svölum og rökum stað, áður en því er stillt upp í stofu.
- Gott er að láta tréð standa í vatnsfötu, en fyrst þarf að skera 1-2 cm neðan af því til að það nái að draga í sig vatnið. Sjáið til þess að það sé nóg af vatni í fötunni.
- Þegar jólatréð er komið á sinn stað inni í stofu er gott að hafa í huga að stilla því ekki upp við ofn eða arin – því það þurrkar tréð mun fljótar en ella.
- Munið að vökva jólatréð reglulega því þau drekka heilmikið af vatni – sérstaklega stærri tré.
Það er mikilvægt að hlúa vel að jólatrénu ef þú vilt að það nái að standa yfir hátíðarnar.
mbl.is/