Þetta hljómar eins og lygasaga, en alvöru eðla hefur gefið út sína eigin matreiðslubók.
Já gott fólk, skeggjuð eðla eða dreki að nafni Lenny, hefur gefið út sína fyrstu matreiðslubók sem ber titilinn „Chef Lenny: Cooking For Humans“. Og eins og nafnið ber til kynna, þá eru þetta ekki uppskriftir með dýrafóður, heldur uppskriftir fyrir okkur mannfólkið.
Af myndum að dæma úr bókinni, má sjá Lenny stilla sér upp með litlum pottum og pönnum, kexi og ostum, svo eitthvað sé nefnt. Matreiðslubókin var hugarfóstur Valerie Musser sem er menntaður matreiðslumeistari og einnig eigandi Lenny. Valerie byrjaði á verkefninu á meðan hún var í samgöngubanni í heimalandi sínu, en hún rak lítinn veitingarekstur áður en heimsfaraldurinn skall á. Hún hefur verið að skrifa þessa bók síðustu tíu árin en aldrei gefið sér tíma til að setjast niður, fullklára og flokka – fyrr en nú!
Hugmyndin með að hafa Lenny sem stjörnu bókarinnar kom þegar hún pantaði kokkahúfu handa honum á Etsy. Eftir það fór hún að útbúa ýmsa smárétti fyrir hann og taka myndir . Bókin er 134 síður og hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur – fyrir áhugasama má finna bókina HÉR.