Hnetusteik Kaju komin í jólalag

mbl.is/Brynjar Gauti

Við fengum þær fregnir að „Jólalag allra landsmanna“ fjalli að mestu um góðan mat, og þar séu hvorki meira né minna en hnetusteikin frá Kaju og Hornafjarðarhumarinn í aðalhlutverki. Við settum okkur í samband við höfund lagsins, Magnús Guðmann Jónsson, sem fræddi okkur aðeins betur um málið.

Okkur lék forvitni á að vita meira um lagið, þar sem textinn greip okkur samstundis – enda fátt sem fer framhjá okkur þegar eitthvað matarkyns er annars vegar. Magnús sagði í samtali að hann og Albert tvíburabróðir hans hefðu samið lög, spilað og sungið frá því að þeir myndu eftir sér. „Lagið kom til mín svona eins og önnur lög í gegnum eitthvert gítargutl. Þar sem við bræðurnir erum nú mjög oft uppteknir, þá tókum við tvo spretti í að taka lagið upp – og þar er bróðirinn á heimavelli,“ segir Magnús. Þeir fengu síðan krakkana sína báðum megin til að syngja stutta línu inn í lagið sem gerði þetta enn skemmtilegra.

Þeir bræður hafa báðir tekið þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins og segir Magnús það oft til vandræða hvað eigi að gera við öll þessi lög sem koma til hans og bætir við að þá sé gott að eiga bróður sem geti fært þau í stílinn og raungert. En þeir stefna á að setja öll lögin sín inn á Spotify, undir nafninu Moldarkofinn.

Landsbyggðin leikur stórt hlutverk

Magnús segir að góður matur sé ofarlega á lista um jólin og textinn í laginu snýst að mörgu leyti um það. „Það var gaman að fara í gegnum hvaðan jólaafurðirnar koma, en þar á landsbyggðin stóran þátt. Ég vildi fara vítt og breitt um landið og reyna að ná sem flestum landshornum inn í textann. Hnetusteikin frá Kaju kom þannig til að systir mín er grænmetisæta og fær sér hnetusteik um jólin – og því varð mér hugsað til þeirra sem vantar staðkvæmdarvöru við hefðbundnar jólasteikur. Ég er ekki sérfróður maður um hnetusteikur en reyndi að kynna mér framboðið. Þar fann ég grein um hnetusteik með lerkisveppasósu frá íslensku fyrirtæki sem heitir Kaja Organics. Þetta fannst mér hljóma mjög vel og fannst frábært að sjá að fyrirtæki á Akranesi framleiddi hágæðahnetusteikur,“ segir Magnús. Hann segir jafnframt að Kristjáns-laufabrauðið sé landsfrægt laufabrauð frá Akureyri ásamt hangikjötinu frá Húsavík. „Verst fannst mér að ekki séu enn framleiddar baunir á Bíldudal, en bæjarhátíðin er gott framtak til að halda heiðrinum á lofti. Önnur matarbæjarhátíð er Humarhátíðin á Hornafirði, en hennar er minnst í textanum. Ég þekki líka gott fólk á Hornafirði og finnst ég kasta kveðju á það með því að tilgreina humarinn í textanum. Það má því segja að lagið sé ákveðin kveðja á landsbyggðina fyrir hennar framlag,“ segir Magnús.

Aðspurður segist Magnús vera kominn í jólagír, hann er búinn að skreyta og pakka inn öllum gjöfunum  panta jólasteikina og klára jólalag. „Við hjónin ætlum að hafa wellington-nautalund frá Kjötkompaníinu annað árið í röð. Við höfum yfirleitt haft kalkún, en breyttum frá þeirri hefð í fyrra. Í forrétt erum við alltaf með aspassúpu. Eftirrétturinn er síðan heimalagaður snickersís sem hefur verið á borðum frá því ég var barn og er upprunninn frá Stellu ömmu. Jafnvel enn lengra aftur. Ég þarf að kynna mér það betur,“ segir Magnús og deilir með okkur að lokum Jólalagi allra landsmanna – en hlusta má á lagið í heild sinni HÉR.    

„Jólalag allra landsmanna
„Jólalag allra landsmanna" var að koma út og er textinn stórskemmtilegur við lagið. mbl.is/Getty images
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert