Sumac uppseld

Ljósmynd/Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Matreiðslubók Sumac hefur slegið í gegn og er það morgunljóst að landann þyrstir í framandi rétti frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Bókin er orðin uppseld hjá útgefanda og hratt hefur gengið á hana í búðum á síðustu dögum og eru eintök í matvöruverslunum og stórmörkuðum að verða búin. Bókin er enn fáanleg í flestum bókabúðum en mun líklegast klárast á næstu dögum þannig að fólk þarf að hafa hraðar hendur ef það vill tryggja sér eintak fyrir jólin.

Sumac hefur verið einn vinsælasti veitingastaður landsins um árabil og er því ekki að undra að matreiðslubók staðarins skuli slá í gegn. Í bókinni er áhersla lögð á ferskt og gott hráefni sem matreitt er undir áhrifum Mið-Austurlanda og Norður-Afríku. Eldur, framandi krydd, fjölbreytileiki og hollar og girnilegar nýjungar eru meginstef bókarinnar sem inniheldur fleiri en hundrað uppskriftir sem prýtt hafa matseðil Sumac. Í bókinni má meðal annars finna uppskriftir að brauðum, ídýfum, smáréttum, sósum, grænmetis-, fisk- og kjötréttum, meðlæti, eftirréttum, kryddblöndum, kokteilum og mörgu fleiru. 

Þráinn Freyr Vigfússon hefur starfað á mörgum virtum veitingastöðum á Íslandi og erlendis. Hann opnaði veitingastaðina Sumac og ÓX árið 2017. Þráinn hefur verið valinn kokkur ársins hérlendis, keppt fyrir Íslands hönd í Bocuse d'Or og verið meðlimur og þjálfari kokkalandsliðs Íslands. 

Miðausturlensk og afrísk matargerð hefur ávallt heillað Þráin sem hefur ferðast víða til að safna hugmyndum og efnivið sem svo varð kveikjan að veitingastaðnum, og nú bókinni. Matreiðslubók Sumac er í stóru og glæsilegu broti og er sannkölluð skyldueign ástríðukokka.

Þráinn Freyr Vigfússon.
Þráinn Freyr Vigfússon. Ljósmynd/Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Bókin er uppseld hjá útgefanda og víða í verslunum.
Bókin er uppseld hjá útgefanda og víða í verslunum. Ljósmynd/Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka