Fríða í Regalo bakar langömmubrauð á jólunum

Fríða Rut, hárgreiðslumeistari og eigandi Regalo ehf. Hún heldur í …
Fríða Rut, hárgreiðslumeistari og eigandi Regalo ehf. Hún heldur í hefðir fyrir jólin og bakar brauð eftir uppskrift langömmu sinnar sem þau fjölskyldan njóta á jóladag. mbl.is/Ólína Kristín Margeirsdóttir

Það er óhætt að fullyrða að jólaandinn sé að hertaka landann og hjá Fríðu Rut er það engin undantekning – því það er í nógu að snúast hjá Regalo þessa dagana eftir að hárgreiðslustofur voru opnaðar aftur.

Við tókum púlsinn á Fríðu, sem er hárgreiðslumeistari að mennt og eigandi heildsölunnar Regalo ehf. en fyrirtækið flytur inn allar þekktustu og helstu hárvörur landsins, eins og Maria Nila, Kérastase, L'ORÉAL, Moroccanoil og fleiri frábær vörumerki. Fríða segir Íslendinga mikið hafa keypt gjafakassa fyrir jólin, en annars fer allt frekar jafnt og þétt. „Þetta hafa verið skrítnir tímar, og þegar hárgreiðslustofunum var lokað nýttum við tímann í að taka til og skipuleggja okkur. Eftir að stofurnar voru aftur opnaðar erum við búin að vera á skemmtilegum hlaupum að koma jólapakkningum með vörunum okkar á alla útsölustaði,“ segir Fríða.

Nýverið kom út stórskemmtilegt myndband á Youtube frá Regalo, sem sýnir starfsfólkið í öðru ástandi en vaninn er á venjulegum vinnutíma. Er stemningin alltaf svona góð eða eruð þið að jóla yfir ykkur á skrifstofunni? „Já, það er ótrúlega flottur vinnuandi hjá okkur og við leggjum mikið upp úr því að vinna saman sem heild  við í markaðsdeildinni ákváðum að hressa alla við og sló þetta heldur betur í gegn,“ segir Fríða, en myndbandið má sjá HÉR.

Fríða hlakkar mest til að liggja uppi í sófa og horfa á allar dásamlegu jólamyndirnar í sjónvarpinu – og njóta með krökkunum. Hún segist halda fast í hefð frá langömmu sinni heitinni og bakar ár hvert brauðið hennar sem þau borða á jóladag með baunasalati. En hvað er í jólamatinn í ár? „Ég er alin upp við hamborgarhrygginn, en með tímanum fórum við að hafa kalkúnaskip líka – svo það hefur verið tvíréttað hjá okkur á aðfangadag. Í ár ætlum við bara að hafa kalkúninn, því hann fer mun betur í magann á öllum – við fundum það um síðustu jól hvað okkur leið vel eftir matinn.“

Við spyrjum Fríðu hvers hún óski sér í jólagjöf. „Ætli það séu ekki bara skíði, enda farin að bíða eftir að skíðasvæðin verði opnuð aftur, svo við fjölskyldan getum skíðað saman,“ segir Fríða að lokum.

Starfsólk Regalo ehf - í sýnu fínasta pússi, enda jólin …
Starfsólk Regalo ehf - í sýnu fínasta pússi, enda jólin rétt handan við hornið. mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert