Með hlýjum og náttúrulegum tónum kynnir Ferm Living nýjustu afurðir sínar fyrir vorið.
Danski húsbúnaðarrisinn Ferm Living hefur tekið forskot á sæluna, eða vorið og sumarið, með því að kynna nýja vöru sem væntanleg er á markað. Með því að fagna töfrum útirýmisins og þeirri einstöku, kyrrlátu tilfinningu sem fylgir því að eyða tíma í náttúrunni kýs Ferm Living að kalla það „ljóð utandyra“, sem endurspeglast í nýju vörunum þeirra. Við sjáum einstaklega fallega vatnskönnu sem hugsuð er til að vökva útiblómin, framleidd úr endurunnu plasti. Kannan er straumlínulaga og er jafn nytsamleg og hún er falleg – og þá er markmiðinu náð.
Vatnskannan rúmar fimm lítra af vatni og passar jafn vel á svalirnar sem og inn í stofu – en hún mun vera fáanleg í þremur litum, svörtu, kasmír og ólífugrænu. Samkvæmt heimasíðu Ferm Living eru könnurnar væntanlegar í lok mars, sem nánast er handan við hornið.