Alvöru íslensk kjötsúpa sem hittir í mark

Ljósmynd/Stella Rún

Stella Rún sem heldur úti hinni bráðskemmtilegu matarbloggsíðu Ilmurinn úr eldhúsinu, á heiðurinn að þessari kjötsúpu sem ætti að gleðja hjörtu enda fátt betra í janúar en góð súpa.

„Á hverju hausti fæ ég óstjórnlega löngun í ekta íslenska kjötsúpu, þessa eins og amma gerir. Löngunin var nú óvenju seint á ferðinni þetta árið enda höfum við fengið afskaplega gott og fallegt haust. Það hlaut þó að koma að því svo um helgina var stóri potturinn sóttur inn í búr og kjötsúpan látin malla dágóða stund."

„Það virðist sem hver og ein fjölskylda eigi sína útgáfu af kjötsúpu. Sumir nota hafra og hrísgrjón til að þykkja hana örlítið, annað hvort eða bæði. Sumir kjósa að sleppa grjónum alveg og vilja hana tæra o.s.frv. Ég hef komist að því að mér finnst best að nota banka- eða perlubygg. Það heldur sér svo vel og verður ekki „mushy“, ekki einu sinni við upphitun daginn eftir. Ég nota byggið frá Móður jörð en byggið er frábært hráefni í alls konar rétti."

Íslensk kjötsúpa

Hin klassíska íslenksa kjötsúpa sem stendur alltaf fyrir sínu.

  • 2,5 l vatn
  • 2,5 - 3 kg súpukjöt á beini, lambakjöt
  • 2 gulir laukar
  • 1 meðalstór rófa
  • 5 stórar gulrætur
  • 500 gr kartöflur
  • 1/4 hvítkálshaus (má sleppa)
  • 6 msk súpujurtir
  • 3 dl banka- eða perlubygg*
  • 3 msk sjávarsalt
  • 2 lambateningar (má sleppa og salta þá aðeins betur)
  • Svartur pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Setjið vatn í frekar stóran pott. Fituhreinsið kjötið og smækkið bitana ef ykkur finnst þörf á því. Látið kjötið í pottinn og leyfið suðunni að koma upp.
  2. Sjóðið í 30-40 mín. Fleytið mesta soranum og fitunni ofan af. Þessu má alls ekki sleppa því annars verður súpan aldrei tær og girnileg.
  3. Skerið grænmetið og kartöflurnar í hæfilega stóra bita og bætið í pottinn ásamt súpujurtunum, saltinu og piparnum og teningunum. Geymið hvítkálið og byggið þar til síðast.
  4. Leyfið að krauma við miðlungshita í a.m.k. klukkustund.
  5. Þegar um 20 mín eru eftir af eldunartímanum skulið þið bæta bygginu og hvítkálinu saman við. Hvítkálinum má sleppa alveg en mér finnst það gefa svo gott bragð.
  6. Smakkið til með salti og pipar og jafnvel aðeins meiri krafti.

*nota má hvaða grjón sem er. Algent er að nota blöndu af hrísgrjónum og haframjöli. Þó að 90 mín dugi vel til að elda allt í gegn skal tekið fram að súpan batnar bara eftir því sem hún fær að malla lengur. Það má því leyfa henni að krauma á hellunni í dágóða stund hafi maður tíma til.

Uppskrift þessi er frekar stór en sjálfsagt að smækka hana niður fyrir minni heimili. Það er þó mín skoðun að kjötsúpa sé frábær afgangamatur og jafnvel betri daginn eftir og því um að gera að útbúa meira en minna.

Ljósmynd/Stella Rún
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka