Franska lauksúpan sem þykir algjörlega frábær

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hér erum við með dásemdarlauksúpu sem Berglind Hreiðars á Gotteri.is á heiðurinn af.

„Ég man alltaf eftir því að mamma eldaði þessa lauksúpu þegar ég var barn. Ég get ekki sagt að ég hafi verið hrifin af henni á þeim tíma en man alltaf hvað mamma dásamaði þessa súpu og gerir enn. Ég fékk því hjá henni uppskriftina og setti minn brag aðeins á hana eins og gerist þegar maður er að prófa sig áfram með eitthvað í fyrsta skipti í eldhúsinu. Þessi súpa lukkaðist svona líka vel og er hinn fullkomni forréttur eða létt máltíð á undan frekara snarli eða kræsingum með góðum gestum,“ segir Berglind um súpuna.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Lauksúpa uppskrift

Uppskrift dugar í 4-6 litlar skálar (eftir stærð)

  • 50 g smjör
  • 4 meðalstórir laukar
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 lárviðarlauf
  • 4 greinar af fersku timían
  • 120 ml rauðvín
  • 2 msk. hveiti
  • 800 ml nautasoð
  • ½ hvítt snittubrauð
  • ólífuolía
  • rifinn ostur
  • salt, pipar og hvítlauksduft

Aðferð:

  1. Skerið laukinn í þunnar sneiðar, rífið niður hvítlaukinn og steikið báða upp úr smjöri á meðalháum hita ásamt lárviðarlaufi og timían.
  2. Hrærið reglulega í lauknum og kryddið með salti og pipar, leyfið lauknum að malla í að minnsta kosti 15 mínútur eða þar til hann verður vel mjúkur og fer að karamellíserast.
  3. Hellið þá rauðvíninu saman við og leyfið suðunni að koma upp að nýju, lækkið aftur hitann og hrærið reglulega þar til rauðvínið er að mestu gufað upp.
  4. Stráið því næst hveiti yfir rauðvínsleginn laukinn og blandið saman, hellið síðan nautasoðinu yfir, hækkið aftur hitann að suðu og leyfið síðan að malla við lágan hita í að minnsta kosti 15 mínútur áður en þið hitið í litlum skálum.
  5. Skerið á meðan snittubrauð í um 1 cm þykkar sneiðar, raðið á bökunarplötu, hellið smá ólífuolíu yfir brauðið og kryddið með hvítlauksdufti og salti. Ristið við 200°C í um 10 mínútur eða þar til brauðið er stökkt eins og brauðteningur.
  6. Lækkið hitann þá niður í 175°C, skiptið súpunni niður í 4-6 skálar, leggið brauð ofan á og stráið osti yfir brauðið, bakið í ofni í 10-15 mínútur eða þar til osturinn fer að gyllast.
  7. Það er einnig hægt að malla lauksúpuna með smá fyrirvara og síðan setja brauð og ost yfir síðar og hita hana þá.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert