Sú var tíðin að páskaegg voru öll eins og það eina sem menn spáðu í var hvaða stærð yrði fyrir valinu. Sælgætisframleiðendur voru bara með sitt egg og þannig var það. Nú er öldin aldeilis önnur og úrvalið af páskaeggjum er svo spennandi að margir ráða hreint ekki við sig. Nói-Síríus hefur verið þar brautryðjandi og í ár kynnir fyrirtækið tvö ný páskaegg.
Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Nóa-Síríusar, segir að nýju eggin hafi verið nokkuð náttúrulegt val enda byggist þau bæði á sælgæti sem náð hefur gríðarlegum vinsældum hjá fyrirtækinu. Um er að ræða annars vegar Eitt sett-egg og hins vegar Síríus-saltkringluegg.
Eitt sett er eitt rótgrónasta súkkulaðið hjá Nóa og kannski er það einfaldleikinn sem gerir það svo vinsælt. Rjómasúkkulaðilengja og lakkrísbiti sem hægt er að borða saman eða hvort í sínu lagi. Silja segir að ákveðið hafi verið að búa til svokallaða Eitt sett-bita og setja í poka. Átti hún fastlega von á því að það myndi mælast vel fyrir en óraði ekki fyrir viðtökunum. Eitt sett-bitarnir ruku út og voru meðal annars valdir besta nýjungin á árinu 2020 hjá facebookhópnum Nammitips sem er samkomustaður harðkjarnanammispekúlanta hér á landi. Hópurinn hefur vaxið á undraverðum hraða og er nú einn heitasti umræðuvettvangur fyrir sælgæti hér á landi. Það sé því ekki amalegt að hljóta blessun þaðan enda sé það álit neytenda sem skipti mestu máli.
Silja segir að í framhaldinu hafi verið ákveðið að búa til Eitt sett-egg fyrir páskana og hafi áætlanir verið fremur hóflegar. „Nú þegar erum við búin að endurskoða framleiðsluáætlunina tvisvar með tilliti til aukningar þó að enn sé mánuður í páska. Við áttum hreint ekki von á þessum viðtökum og höfum reyndar aldrei séð aðrar eins viðtökur. Við höfum því hert hressilega á framleiðslunni til þess að sem flestir geti tryggt sér sitt uppáhaldsegg.
„Síðan er það hitt eggið okkar sem er ekki síður spennandi en við sendum frá okkur saltkringlusúkkulaði sem fékk frábærar viðtökur og því ákváðum við að breyta því líka í páskaegg. Það hefur komið einstaklega vel út og er virkilega spennandi egg. Það eru ansi margir sem vilja fá stökkan bita og saltkringlueggið svarar þörfum þeirra fullkomlega. Við erum því einstaklega ánægð með nýjungarnar okkar í ár og teljum að þær endurspegli vel þarfir neytenda,“ segir Silja.