Mexíkósk kjúklingasúpa sem sprengir alla skala

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Vinsælasta kvöldmáltíð landsins er án efa mexíkósk kjúklingasúpa og hefur verið það undanfarin ár ef marka má lestrartölur hér á Matarvef mbl.

Hér kemur gríðarlega spennandi útgáfa frá Berglindi Hreiðars á Gotteri.is sem þið eiginlega verðið að prófa. Hér leikur rjómaostur með grillaðri papriku og chili stórt hlutverk og gefur súpunni einstakt bragð og silkimjúka áferð.

Mexíkósk kjúklingasúpa með rjómaosti

4 skammtar

  • 1 stk. rauð paprika
  • 1 stk. blaðlaukur
  • 1⁄2 stk. laukur
  • 4 stk. kjúklingabringur
  • 1 flaska Heinz Chili-sósa (340 g)
  • 600 g hakkaðir tómatar (1 ½ dós)
  • 500 ml vatn
  • 300 g rjómaostur með grillaðri papriku og chili
  • 150 ml rjómi frá Gott í matinn
  • salt, pipar og hvítlauksduft
  • 1 msk. kjúklingakraftur
  • ólífuolía til steikingar
  • sýrður rjómi frá Gott í matinn
  • rifinn gratínostur frá Gott í matinn
  • nachos-flögur

Aðferð:

  1. Skerið papriku í strimla og saxið blaðlauk og lauk.
  2. Setjið til hliðar og geymið.
  3. Skerið kjúklinginn niður í munnstóra bita, steikið léttilega í pottinum upp úr ólífuolíu.
  4. Kryddið til með salti, pipar og hvítlauksdufti og leggið svo til hliðar.
  5. Steikið nú grænmetið í sama potti, bætið við olíu og kryddið eftir smekk.
  6. Þegar grænmetið mýkist má blanda chili-sósunni, hökkuðum tómötum, vatni og rjómaosti saman við og hræra þar til rjómaosturinn er bráðinn saman við súpuna.
  7. Þá má setja kjúklingakjötið og rjómann í pottinn og leyfa að malla aðeins áfram, kryddið til með krafti og kryddum.
  8. Berið Mexíkósúpuna fram með sýrðum rjóma, rifnum osti og nachos-flögum.

Höfundur: Berglind Hreiðarsdóttir

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert