Guðdómlega fallegt eldhús við bæjarmörkin

Þetta fallega eldhús má finna í Mosfellsbæ.
Þetta fallega eldhús má finna í Mosfellsbæ. Mbl.is/Kristín Valdemarsdóttir

Við erum stödd í guðdómlega fallegu eldhúsi í Mosfellsbæ, nánar tiltekið heima hjá Kristínu Valdemarsdóttur ljósmyndara. Og hér er nostrað við hvern krók og kima!

Hér var allt tekið í gegn og sáu húsráðendur alfarið …
Hér var allt tekið í gegn og sáu húsráðendur alfarið um hönnunina. Mbl.is/Kristín Valdemarsdóttir

Kristín er íþróttakennari og ljósmyndari og býr í gullfallegu húsi rétt við bæjarmörkin, ásamt eiginmanni sínum Ágústi Hlyni og dætrunum Matthildi og Karólínu. Fyrir rúmum tveimur árum keyptu þau æskuheimili Kristínar og gerðu það upp. „Það var allt komið á tíma en framkvæmdirnar urðu, eins og oft vill verða, aðeins meiri en við áætluðum. Sérstaklega þar sem það kom í ljós mygla í þakinu og í einum útvegg, og báðar klóaklagnirnar voru brotnar undir húsinu. Svo það er nánast allt nýtt í húsinu nema grindin,“ segir Kristín okkur. En þau gerðu að mestu leyti allt sjálf þar sem Ágúst er afar handlaginn.

Takið eftir hvítu corian borðplötunni og eldhúsvaskinum frá Orgus - …
Takið eftir hvítu corian borðplötunni og eldhúsvaskinum frá Orgus - sem er alveg samskeytalaus. Mbl.is/Kristín Valdemarsdóttir

Klassískt – en líka hipp og kúl
Eldhúsið og stofan eru nú í sameiginlegu 50 fermetra alrými þar sem áður voru þrjú rými, þvottahús, eldhús og stofa. Eldhúsið er því í dag þar sem stofan var áður og hönnuðu húsráðendur allt upp á nýtt sjálf. „Það er oft svolítið erfitt að innrétta heimilið sitt, og ákveða stílinn sem maður vill hafa. Vandamálið með mig er að mér finnst margt svo fallegt, þannig að það var erfitt að ákveða hvaða leið við myndum fara. Ég vildi halda í klassíkina, eitthvað sem maður verður ekki strax leiður á, en einnig að skapa minn eigin stíl  þá ekki eins og margir aðrir eru með, en samt vera smávegis hipp og kúl. Við enduðum á svokölluðum modern farmhouse/traditional-stíl sem hæfir húsinu vel og þeirri notalegu stemningu sem við viljum fá fram,“ segir Kristín.

Kristín er mikill fagurkeri og nostrar við hvern krók og …
Kristín er mikill fagurkeri og nostrar við hvern krók og kima. Mbl.is/Kristín Valdemarsdóttir

Borðplatan samskeytalaus
Upphaflega hugmyndin var að setja hvítt eldhús en svo snerust þau Kristín og Ágúst í heilan hring og völdu svart. Kristín viðurkennir að hafa verið smá smeyk við svarta litinn, en þar sem mikið er af ljósum innviðum í húsinu kemur þetta vel út og skapar meiri andstæður en ella. „Innréttingin heitir Lerhyttan og er úr Ikea ásamt höldunum, og við erum ótrúlega ánægð með útkomuna. Við enduðum svo á að fá okkur hvíta korían-borðplötu og eldhúsvask frá Orgus sem er alveg samskeytalaus. Borðplatan lyftir eldhúsinu algjörlega á annað plan. Við fengum okkur svört og gróf ljós í smá „industrial“-stíl, og viðarhillur á veggina til að auka hlýleikann,“ segir Kristín.

Viðarhillur undir skrautmuni og leirtau, færa hlýleika í eldhúsið.
Viðarhillur undir skrautmuni og leirtau, færa hlýleika í eldhúsið. Mbl.is/Kristín Valdemarsdóttir

Bjart, hlýlegt og fallegt
Kristín viðurkennir að hún mætti vera duglegri að elda, en grillmatur er alltaf í uppáhaldi og föstudagspítsan ómissandi. Hún segir einnig að frábært sé að standa við eyjuna og elda og horfa yfir í stofuna með heimilisfólkinu eða gestum – enda kallar eldhúsið á að vera notað undir veislur og viðburði þegar fer að birta til. „Þetta er hið fullkomna eldhús fyrir okkur. Við elskum hvað eldhúsið er rúmgott og hér er mikið geymslupláss  eins er góður eldhúsvinnuþríhyrningur sem er mjög mikilvægt og frábær vinnuaðstaða. Fyrir utan hvað eldhúsið er rosalega bjart, hlýlegt og fallegt,“ segir Kristín og við tökum undir – eldhúsið er gullfallegt.

Kristín lýsir stílnum á heimilinu sem modern farmhouse/traditional stíl sem …
Kristín lýsir stílnum á heimilinu sem modern farmhouse/traditional stíl sem hæfir húsinu vel. Mbl.is/Kristín Valdemarsdóttir

Ævintýraleg augnablik
Við forvitnumst um hvað sé fram undan hjá Kristínu og ljósmyndaverkefnum, en hún er ansi fær í að fanga augnablik og taka draumkenndar og ævintýranlegar myndir. „Núna með vorinu fer allt að gerast hjá mér, fermingarnar fara að detta inn ásamt barna- og fjölskyldumyndum í sumar og haust. Svo reyni ég að taka smá ævintýramyndir inn á milli,“ segir Kristín að lokum. Þeir sem vilja skoða myndirnar hennar Kristínar eða forvitnast um ljósmyndaverkefni geta skoðað heimasíðuna hennar HÉR eða instagramsíðuna HÉR.

Mbl.is/Kristín Valdemarsdóttir
Mbl.is/Kristín Valdemarsdóttir
Mbl.is/Kristín Valdemarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert