Kjötbollurnar sem gerðu allt vitlaust hjá Helenu

Ljósmynd/Helena Gunnarsdóttir

Hér erum við með hreinræktaða delúx-kjötbolluuppskrift sem ætti að kæta einhverja. Það er engin önnur en Helena Gunnars sem á þessa uppskrift sem hún segir að sé algjörlega frábær.

„Ég er mjög spennt að deila með ykkur þessari uppskrift sem sló í gegn á heimilinu. Sterk og bragðmikil tómatsósan smellpassar við kjötbollurnar og silkimjúkan rjómaostinn. Frábært að bera fram með ristuðu súrdeigsbrauði eða pasta,“ segir Helena um uppskriftina.

Kjötbollur með chilitómatsósu og rjómaosti

Fyrir fjóra

Kjötbollur:

  • 2 dl brauðraspur
  • 1 dl mjólk
  • 600 g hreint nautahakk
  • 2 dl rifinn parmesan eða Goðdala-Feykir
  • 1 msk. þurrkuð eða fersk steinselja
  • 2 stk. pressuð hvítlauksrif
  • 2 tsk. sjávarsalt
  • 1 tsk. svartur nýmalaður pipar
  • 1 stk. egg

Sósa:

  • 2 msk. smjör
  • 1 stk. rauðlaukur, smátt saxaður
  • 2 stk. hvítlauksrif, smátt söxuð
  • 1⁄2 tsk. þurrkaðar chiliflögur (meira eða minna eftir hversu sterka sósu þið viljið)
  • 1 tsk. garam masala-kryddblanda
  • 1 tsk. paprikukrydd
  • 2 dósir hakkaðir tómatar
  • 1 tsk. tómatpaste
  • 1 tsk. sykur eða önnur sæta
  • 150 g hreinn rjómaostur frá Gott í matinn
  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Ofn hitaður í 200 gráður með blæstri.
  2. Mjólkinni hellt yfir brauðmolana og látið standa í 5 mínútur.
  3. Öllu blandað vel saman. Ég set allt í hrærivél og blanda þannig saman.
  4. Bollur á stærð við golfkúlur mótaðar úr hakkinu.
  5. Bollurnar bakaðar í ofni í 20 mínútur eða þar til vel brúnaðar og eldaðar í gegn.
  6. Á meðan bollurnar bakast er sósan gerð.
  7. Laukur, hvítlaukur og chiliflögur steikt upp úr smjöri.
  8. Kryddað með garam masala og paprikukryddi og steikt aðeins.
  9. Tómötum og tómatpaste hellt út á og suða látin koma upp.
  10. Smakkað til með salti, pipar og sætu.
  11. Ofninn stilltur á grill.
  12. Kjötbollur settar út í sósuna og doppur af rjómaosti settar inn á milli.
  13. Smá parmesanostur rifinn yfir.
  14. Sett undir grillið í ofninum og bakað þar til osturinn bakast og verður gullinn.

Höfundur: Helena Gunnarsdóttir

Ljósmynd/Helena Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert