Þau eru ófá eldhúsin hér á landi sem þykja ægifögur og oftar en ekki eru þau teiknuð af innanhússarkitektum – en við náðum tali af Ernu Geirlaugu sem hannað hefur nokkur eldhúsin og situr fyrir svörum í dag.
Erna Geirlaug Árnadóttir er menntaður innanhússarkitekt og elskar hönnun, tísku og allt sem viðkemur innanhússhönnun. Hún hefur starfað við fagið frá 1999 og gerðist sjálfstætt starfandi á síðasta ári undir eigin nafni – og hefur verið í margs konar verkefnum síðan þá. Eldhús, baðherbergi, val á húsgögnum og allt yfir í heildarhönnun innanhúss, engin verkefni eru of stór eða smá.
Hvað eru heitustu eldhústrendin þessi dægrin?
Margir vilja hafa tvo ofna í eldhúsinu sínu í dag, sem sagt einn ofn og svo comby-ofn. Eins eru vínkælar mjög vinsælir og helluborð með innbyggðum gufugleypi eru að koma sterkt inn.
Að hverju þarf fólk að huga þegar það fer út í eldhúsframkvæmdir?
Öllu! Það þarf að skipuleggja rýmið vel, rýmið þarf að vera fallegt og það þarf að virka. Ég tek alltaf mið af þörfum kaupanda hvað varðar efnisval á innréttingu, borðplötu og heimilistækjum – en þetta þarf allt að smella saman, og auðvitað þarf að vera gott að vinna og vera í rýminu. Og svo má alls ekki gleyma lýsingunni. En það er kannski rétt að benda á að það er 100% endurgreiðsla á virðisauka af vinnu innanhússarkitekta út þetta ár (átakið Allir vinna). Það er því hvetjandi að kasta sér út í þær framkvæmdir sem hafa staðið til í langan tíma.
Hvað er það skemmtilegasta við að hanna nýtt eldhús?
Mér finnst gaman að hanna öll eldhús, því engin tvö eldhús eru eins. Það er mjög góð tilfinning þegar ég kem með tillögur og fólk hefur haft þá sýn að ekkert sé hægt að gera í rýminu. En eins og ég segi, þá finnst mér öll rými skemmtileg í hönnun.
Hvað er það mikilvægasta í eldhúsum að þínu mati?
Það mikilvægasta á mínu heimili er klárlega tækjaskápurinn.
Hér fyrir neðan má sjá nokkur eldhús sem Erna Geirlaug hefur hannað, og þeir sem vilja setja sig í samband við Ernu geta kíkt á síðuna hennar HÉR.