Geggjaðar Teriyaki núðlur með nautakjöti - ketó

Ljósmynd/María Gomez

Við matgæðingar erum miklir aðdáendur Teriyaki og nautakjöt í slíkri sósu er alveg sérstaklega gott. Þegar núðlurnar blandast við eru austurlensku bragðhrifin í algleymingi en hinn óvænti bónus er klárlega kolvetnalausu núðlurnar frá BareNakes sem við erum afskaplega hrifin af.

Það er María Gomez á Paz.is sem á heiðurinn að þessari uppskrifti sem tikkar í öll box hjá okkur.

„Ég veit að margir sem eru á Keto sakna þess eflaust að geta fengið sér pasta, núðlur og grjón. Þeir geta því tekið gleði sína á ný því nú er hægt að fá núðlur frá Bare Naked sem eru Keto vænar. Bare Naked núðlurnar eru alveg bragðlausar einar og sér en þær eru mjög fljóteldaðar, eða tekur bara þrjár mínútur, en þær draga í sig bragðið af sósum, súpum og kryddum sem eru notuð," segir María um uppskriftina.

Keto Teriyaki núðlur með nautakjöti

Það kom mér alveg á óvart hversu góður staðgengill þessar núðlur eru fyrir hinar hefðbundnu og mun ég klárlega nota þær fyrir fjölskylduna mína enda einn hér sem má ekki borða hveiti.

  • 2 pakkar Bare Naked núðlur með bleika miðanum
  • 300 gr nautalund/nautakjöt (má líka nota kjúklingabringur í staðinn en kostnaður er svipaður ef keypt er nautalund í kjötborði)
  • 1/2 græn paprika
  • 1/2 rauð paprika 
  • 4 stk vorlaukur 
  • 1 stór eða 2 litlar gulrætur (veit þær eru ekki Keto en í þessu magni sleppur það)
  • 1 stór grein grænkál (taka laufinn af stilkinum og nota bara þau)
  • 150 gr kastaníusveppir 
  • 1 msk ólífuolía
  • 20 gr smjör+ 10 gr 
  • salt 
  • pipar 
  • Sesamfræ 

Teriyaki sósa

  • 60 gr sykurlaust síróp 
  • 3 msk tamari sósa eða sojasósa 
  • 1 tsk hvítlauksduft 
  • 1/2 msk sriracha sósa 
  • 1,5 dl soðið vatn 
  • 1/2 tsk Xanthan Gum 

Aðferð

  1. Bræðið saman 20 gr smjör og 1 msk ólífuolíu á pönnu 
  2. Skerið nautakjötið í örþunnar ræmur og setjið á heita pönnuna og saltið og piprið 
  3. Steikið bara eins og í 1 mínútu á hvorri hlið og setjið svo á disk með álpappír yfir 
  4. Skerið næst allt grænmetið í þunnar ræmur svona Kínastæl nema sveppina skerið þið í 4 parta og vorlaukinn á ská 
  5. Ekki taka olíuna og smjörið sem þið steiktuð kjötið upp úr af pönnunni heldur bætið út í það hinum 10 gr af smjörinu
  6. Steikjið grænmetið upp úr því þar til það verður svona al dente, eða mjúkt en smá bit í því og saltið það og piprið létt
  7. Gerið sósuna í potti með því að setja allt hráefnið í hana saman í pott nema Xanthan Gum og látið suðuna koma upp 
  8. Þegar suðan kemur upp lækkið þá undir og setjið Xantahn Gum út í og hrærið þar til sósan verður þykk og smá hlaupkennd
  9. Bætið nú núðlunum og nautakjötinu saman við grænmetið á pönnuni og hellið að lokum sósunni út á 
  10. Hrærið öllu vel saman 
  11. Það er mjög gott að dreifa ristuðum sesam fræjum og græna partinum af vorlauknum yfir réttinn og ef þið viljið hafa hann extra spæsí má setja nokkrar chiliflögur út á líka
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert