Tveir nýir staðir bætast við í Mathöll Höfða

Arnþór Birkisson

„Það hefur gengið mjög vel hjá okkur og þótt við séum með gott úrval veitingastaða hér finnum við að það er hægt að bæta við,“ segir Sólveig Andersen, einn eigenda Mathallar Höfða.

Á næstunni verður ráðist í stækkun mathallarinnar. Tveir nýir matsölustaðir munu bætast við þá átta sem fyrir eru. Auk þess verður bætt við lager, vörumóttöku og starfsmannaaðstöðu sem til þessa hefur verið annars staðar á lóðinni. Til þess að koma þessu fyrir tekur Mathöllin yfir hluta þess rýmis sem heilsuræktin Sparta er með í dag.

Í vikunni fögnuðu Sólveig og félagar hennar því að tvö ár eru síðan Mathöll Höfða var opnuð á Bíldshöfða 9. Sólveig segir að vegna ástandsins í þjóðfélaginu verði afmælisfögnuður að bíða betri tíma. Hún segir að bjart sé þó fram undan í rekstrinum og stækkunin sýni það. „Hverfið er að fara að stækka mikið á næstu árum og við teljum að þessi stækkun muni halda okkur í forystunni á þessu svæði með gott úrval veitingastaða. Fyrirhuguð uppbygging í hverfinu gerir ráð fyrir álíka mörgum íbúum og allur Grafarvogur er í dag. Þetta ásamt borgarlínunni sem kemur þarna rétt hjá gefur okkur ástæðu til að stækka núna þegar tækifæri gefst.“

Fjölbreytt úrval veitingastaða er í Mathöll Höfða; Hipstur, Sætir snúðar þar sem einnig eru seldar Maika'i-skálar, Íslenska flatbakan, Culiacan, Svangi Mangi, Wok on, Gastro Truck og Indican. Sólveig segir að þegar hafi verið gengið frá því að annar af stöðunum sem bætast við verði nýr og ferskur pastastaður en hinu rýminu hafi ekki verið ráðstafað. „Þessir nýju staðir verða vonandi opnaðir í byrjun maí,“ segir Sólveig og bendir á að áhugasamir veitingamenn geti sent umsókn á mathollhofda@mathollhofda.is.

Mathallir spretta upp

Nýlega voru kynnt áform um að breyta gamla Pósthúsinu í miðbæ Reykjavíkur í mathöll. Pósthús Mathöll verður opnuð í lok árs gangi allt að óskum. Sömuleiðis stendur til að húsnæði Kaffis Reykjavíkur við Vesturgötu verði mathöll. Þá á ný mathöll að rísa í Borgartúni og önnur í Hafnarfirði þar sem Súfistinn hefur verið rekinn.

Í sumar stendur til að opna mathöll með átta veitingastöðum í endurreistu Mjólkurbúi Flóamanna í miðbæ Selfoss.

Arnþór Birkisson
Arnþór Birkisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert