Við tókum púlsinn á innanhússarkitektinum Sólveigu Andreu – sem hefur hannað ófá eldhúsin og hvert öðru fallegra. Og þegar við rekumst á fallega eldhúshönnun fer allt annað á pásu – sérstaklega ef um íslensk eldhús er að ræða.
Sólveig Andrea Jónsdóttir útskrifaðist sem innanhússarkitekt frá Istituto Superiore di Architettura e Design MILANO árið 1988 og hefur starfað sem slíkur síðan. Hún elskar að sýsla í eldhúsinu löngum stundum að elda og undirbúa matarboð fyrir vini og fjölskyldu, en Sólveig á þrjú börn og tvö barnabörn – svo það er í nógu að snúast. Við spurðum Sólveigu nokkurra spurninga um mikilvægasta rými heimilisins – eldhúsið. Og fengum hana til að deila með okkur myndum af nokkrum eldhúsum sem hún hefur svo smekklega hannað.
Hvað eru heitustu eldhústrendin þessi dægrin?
Það er mjög vinsælt að vera með tækjaskáp í eldhúsinu þessa dagana, og það ekki að ástæðulausu.
Að hverju þarf fólk að huga þegar það fer út í eldhúsframkvæmdir?
Best er að leita til fagmanns til að fá sem mest út úr plássinu, því við sjáum oft lausnir sem fólk sér ekki svo glögglega. Eins þarf að skoða vel efnisval, lýsingu og borðplötu – allt þetta skiptir máli í rými sem þessu.
Hvað er það skemmtilegasta við að hanna nýtt eldhús?
Mér finnst eldhúsið alltaf vera „aðalmálið" í húsinu, og því skiptir máli að það sé vel skipulagt og fallegt efnisval, því efnisvalið þarf að vera gegnumgangandi í húsinu. Oftast velur maður efni í eldhús áður en gólfefnið er valið. Og þar sem mér finnst svo skemmtilegt að elda og nota eldhúsið, þá er það með því skemmtilegra sem ég hanna.
Hvað er ómissandi að hafa/eiga í eldhúsinu?
Margir vilja hafa tækjaskáp, og mér finnst hann vera ómissandi ef hann kemst fyrir. Einnig er mjög vinsælt að hafa tvo ofna, þá einn venjulegan og annan minni – en það flokkast kannski ekki undir að vera ómissandi.
Hægt er að skoða fleiri verk og setja sig í samband við Sólveigu á Facebook eða á Instagram.