Satanískt salat sem allt varð brjálað út af

Hefur þú smakkað poppkornsalat með majónesi?
Hefur þú smakkað poppkornsalat með majónesi? Mbl.is/Food Network

Fréttir voru að berast af sumarsalati sem fólk fussar yfir og segir vera glæp gegn mannkyninu – svo ekki sé minna sagt.

Matarbloggarinn Molly Yeh kom fram í vinsæla þættinum Girl Meets Farm á Food Network, og sýndi uppskrift að sumarsalati sem fólk hefur haft misjafnar skoðanir á. Hér er á ferð svokallað poppkornssalat sem er blanda af poppi, majónesi og grænmeti. Hún segist þó ekki vera sú fyrsta sem útfæri slíkt salat á diskinn, og sé í raun að deila vinsælum miðvestrænum rétti með heiminum. Molly segir að fólki bregði við að heyra af salatinu, en það sé í raun mjög bragðgott. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að setja fisk í salatið.

Hún byrjar á því að útbúa sósuna með því að blanda saman majónesi, sýrðum rjóma, dijon-sinnepi, sykri, eplaediki, salti og pipar. Sósunnni er því næst blandað saman við baunir, gulrót, smátt saxað sellerí og poppkorn með ostakryddi. Þetta borðar hún síðan af bestu lyst og þá helst með skeið.

Uppskriftinni var deilt á facebooksíðu Food Network þar sem ummælin létu ekki á sér standa. Fólki var hreinlega ofboðið og var ekkert að skafa af hlutunum, og einhverjir frá svokölluðum upprunaslóðum salatsins höfðu aldrei heyrt um það áður. Inni á milli neikvæðnisradda mátti þó sjá eitt og eitt komment á jákvæðu nótunum. Eitt er víst að við hér á matarvefnum höfum aldrei smakkað, en forvitnin er að fara með okkur.

Mbl.is/Food Network
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert