Um þessar mundir er Krónan að prófa nýja snjalllausn sem kallast „Skannað og skundað“ og verður Krónuvinum boðið að skanna vörur sínar með eigin síma beint ofan í körfuna eða eigin poka, greiða þær í gegnum Snjallverslunarappið og ganga út – milliliðalaust.
Frábær viðbót fyrir neytendur
„Krónan verður fyrsta íslenska matvöruverslunin til að bjóða upp á þessa lausn og er starfsfólk okkar þegar byrjað að prófa hana,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, og að hennar sögn verður þetta frábær viðbót fyrir neytendur.
„Skannað og skundað verður aðgengilegt viðskiptavinum okkar í gegnum Snjallverslun Krónunnar og er enn eitt skrefið sem við stígum til að einfalda líf viðskiptavina okkar. Þetta mun einfalda ótrúlega margt. Í þessu felst mikill tímasparnaður, sérstaklega fyrir þá viðskiptavini sem skjótast inn til að grípa t.d. hádegismat eða nokkra hluti og losna ekki síst við tvíverknað sem getur falist í því að setja vörur í körfu, þaðan upp á kassasvæði og loks í poka. Þá er þetta frábært tæki til þess að fylgjast með verðinu á matarkörfunni því viðskiptavinurinn sér jafnóðum hvað matarkarfan kostar,“ segir Ásta Sigríður.
Stefna á að opna í sumar
Verslanir á Norðurlöndunum hafa innleitt sambærilegar lausnir á síðastliðnum árum og horfir Krónan til reynslunnar þar í sinni þróun. Lausnin er tilbúin en enn þá í þróunarfasa. Ásta Sigríður segir að þau vilji prófa hana vel svo upplifunin verði sem best fyrir viðskiptavini. Stefnan er að opna „Skannað og skundað“-þjónustuna í Krónuversluninni Lindum í sumar og fleiri verslunum í kjölfarið, ef vel gengur.
„Við eigum frábæra viðskiptavini sem hafa tekið gríðarlega vel í allar nýjungar og hjálpað okkur að þróa áfram lausnir í samtali og samstarfi. Það verður mjög áhugavert að fylgjast með, bæði prófunum og svo þegar opnað verður á lausnina fyrir alla viðskiptavini. Í þessu felast mörg tækifæri. Við sjáum til dæmis breytta kauphegðun eftir innleiðingu sjálfsafgreiðslukassa, að nú kaupir meira en helmingur okkar viðskiptavina allt í gegnum sjálfsafgreiðslu,“ bendir hún á og bætir við að það sé líka enn ein leiðin til að auka verðvitund viðskiptavina, því hægt er að sjá jafnóðum hvað hver vara kostar og um leið karfan í heild.