Opna nýjan bar á Skólavörðustíg

Magnús Már Kristinsson og Vilhjálmur Kristjánsson opna senn bar á …
Magnús Már Kristinsson og Vilhjálmur Kristjánsson opna senn bar á Skólavörðustíg 8. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýr bar verður opnaður á Skólavörðustíg í byrjun júlímánaðar. „Þetta verður krúttlegur skandinavískur staður,“ segir Magnús Már Kristinsson veitingamaður sem opnar staðinn ásamt félaga sínum, Vilhjálmi Kristjánssyni.

Nýi staðurinn hefur ekki enn fengið nafn en hann verður á Skólavörðustíg 8 þar sem Reykjavík Sportbar var áður til húsa. Sá hefur verið fluttur á Hverfisgötu.

„Við verðum auðvitað með góðan bjór en ætlum nú að fara meira út í kokteila. Við erum flinkir í að setja vökva á kúta og munum einbeita okkur að kokteilum á krana. Þetta verður svolítið öðruvísi en verið hefur annars staðar því við munum nota nítró-gas til að dæla þeim. Það mun koma kokteilbarþjónum á óvart að það þarf ekki að hrista drykkina. Einn vinsælasti drykkur borgarinnar, Espresso Martini, kemur til dæmis beint af dælu í glasið með froðu,“ segir Magnús. Hann segir að nýi barinn verði samkomustaður fyrir fullorðið fólk. Þar verði falleg skandinavísk húsgögn og listaverk á veggjum. „Þetta verður ekki skemmtistaður, þarna getur fólk komið og hitt vini sína og félaga. Við ættum að geta opnað fyrstu helgina í júlí, í seinasta lagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert