Ostakakan sem þú kolfellur fyrir

Ljósmynd/Linda Ben

Hér er á ferðinni einstaklega ljúffeng og lekker ostakaka sem jafnframt inniheldur mikið af grískri jógúrt sem tekur hana upp á næsta stig ef svo má að orði komast.

Það er meistari Linda Ben sem á heiðurinn af þessari dásemd en hún notar múslí í botninn sem okkur finnst afar snjallt.

Jógúrtostakaka á múslíbotni

  • 300 g classic crunchy-múslí frá Kellogg
  • 100 g smjör
  • 300 g rjómaostur
  • 300 g grískt jógúrt
  • 150 g flórsykur
  • 250 g bláber
  • Fersk mynta (má sleppa)

Aðferð

  1. Bræðið smjörið og mylljið helminginn (150 g) af múslíinu í matvinnsluvél, blandið smjörinu saman við. Bætið restinni af múslíinu út í og rétt svo púlsið það niður með matvinnsluvélinni, það á vera nokkuð gróft ennþá, blandið svo saman blöndunni með sleif.
  2. Smyrjið 22 cm hring af smelluformi og klæðið hringinn með smjörpappír. Leggið hringinn á kökudisk og setjið múslíblönduna ofan í hringinn á kökudiskinn. Passið að hafa hringinn akkúrat í miðjunni á diskinum og þéttið botninn niður, gerið hann örlítið hærri í hliðunum. Setjið í frysti eða kæli.
  3. Þeytið rjómaostinn létt þar til hann verður kekklaus. Bætið þá út í gríska jógúrtinu og flórsykrinum.
  4. Setjið jógúrtblönduna á botninn en reynið að setja ekki á kantana á botninum. Setjið í kæli (má vera frá 1 klst og lengur, þægilegt að gera kökuna daginn áður).
  5. Takið smelluformshringinn í burtu og bætið ferskum bláberjum ofan á, skreytið með ferskri myntu.
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert