Guðfinna fann gamla bók með æðislegri uppskrift

Eplakökudraumur - uppskrift úr gamalli matreiðslubók.
Eplakökudraumur - uppskrift úr gamalli matreiðslubók. Mbl.is/Guðfinna Magnúsdóttir

Gersemerar leynast víða og það líka í eldhússkúffunum – Guðfinna Magnúsdóttir ljósmyndari og einn eigandi verslunarinnar VIGT, fann gamla matreiðslubók sem á sér sögu.

Við komumst á snoðir um að Guðfinna ætti dýrmæta matreiðslubók frá árinu 1945, og er því ómetanleg eign. Bókin heitir einfaldlega „Matreiðslubók – með heilsufarslegum inngangi eftir Steingrím Matthíasson lækni“, en bókina sjálfa skrifar Jónína Sigurðardóttir. Hér er um að ræða fimmta eintak sem kom út fyrir hvorki meira né minna en 76 árum síðan. En hvernig endar gripur sem þessi í höndunum á Guðfinnu? „Við vorum að hugsa um að selja húsið okkar sem við bjuggum í á þeim tíma því okkur langaði að festa kaup á húsinu hans afa, en amma var farin frá okkur. Þá dreymir mig að amma er komin aftur til okkar og er að baka eplaköku handa okkur – allri stórfjölskyldunni. Morguninn eftir fengum við tilboð í húsið okkar og ég fer þá í heimsókn í afahús, einhverra hluta vegna opna ég uppskriftarskúffuna „hennar ömmu“, og þar blasir við mér bókin. Á fyrstu síðu er handskrifuð uppskrift af eplakökunni sem ég deili hér með ykkur“, segir Guðfinna sem þurfti ekki að hugsa sig betur um og festi kaup á húsinu.

Guðfinna deilir hér með okkur uppskriftinni að eplakökunni góðu sem hún mælir heilshugar með. Hráefnalistinn er stuttur og aðferðin einföld – gjörið svo vel.

Eplakökudraumur

  • 75 g hveiti
  • 100 g smjörlíki
  • 75 g sykur
  • 2 egg
  • 25 g kartöflumjöl
  • 1 tsk lyftiduft
  • Epli og kanilsykur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra eggin og sykurinn saman.
  2. Blandið því næst öllum hráefnum saman við, gott að sigta þau ofan í og blanda saman með skeið.
  3. Setjið skorna eplabita út í deigið (um 1 epli).
  4. Stundum hef ég bætt örlítilli vanillu út í deigið.
  5. Setjið í lítið form, raðið eplaskífum ofan á og stráið kanilsykri yfir.  
  6. Bakist á 180 gráðum í 30 mínútur.
Uppskriftin er frá ömmu Guðfinnu og þykir einstaklega bragðgóð.
Uppskriftin er frá ömmu Guðfinnu og þykir einstaklega bragðgóð. Mbl.is/Guðfinna Magnúsdóttir
Eldhúsinnrétting sem stendur enn fyrir sínu! Teiknuð af Finni Fróðasyni …
Eldhúsinnrétting sem stendur enn fyrir sínu! Teiknuð af Finni Fróðasyni og smíðuð af Grindinni. Innréttingin var upphaflega í ljósri eik en Guðfinna lakkaði hana dökka. Mbl.is/Guðfinna Magnúsdóttir
Guðfinna Magnúsdóttir ljósmyndari og einn eigandi VIGT.
Guðfinna Magnúsdóttir ljósmyndari og einn eigandi VIGT. Mbl.is/Guðfinna Magnúsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert