Nei, hættu nú alveg Berglind!

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Þegar við héldum að ekki væri hægt að búa til fleiri spennandi útgáfur af skyrtertu kemur Berglind Heiðarsdóttir á Gotteri.is með þessa sprengju. Við erum að tala um súkkulaði Rice Krispies-botn og svo notar hún hvítsúkkulaði- og jarðarberjaskyr sem er einstaklega bragðgott.

Skyldusmakk!

Skyrkaka í hrískökuskál uppskrift

Hrískökuskál

  • 30 g smjör
  • 150 g suðusúkkulaði
  • 180 g Lyle's-síróp (úr dós)
  • 100 g Rice Krispies

Aðferð:

  1. Setjið bökunarpappír í botninn á 22 cm smellformi. Spreyið það síðan að innan með matarolíuspreyi. Með þessu móti er ekkert mál að ná kökunni úr eftir kælingu.
  2. Bræðið smjör, súkkulaði og síróp saman í potti, leyfið að sjóða í um eina mínútu og takið af hitanum.
  3. Hrærið Rice Krispies saman við, hellið blöndunni í smelluformið og pressið í botninn og upp hliðarnar og kælið áður en þið setjið fyllinguna í.

Fylling

  • 3 x dós af Ísey-skyri með jarðarberjum og hvítu súkkulaði (3 x 170 g)
  • 500 ml stífþeyttur rjómi
  • um 100 g hvítt súkkulaði
  • um 250 g jarðarber

Aðferð:

  1. Blandið varlega saman skyri og rjóma með sleif, hellið í hrískökuskálina.
  2. Skafið hvítt súkkulaði niður, t.d. með ostaskera, og skerið jarðarberin niður.
  3. Setjið súkkulaði og jarðarber til skiptis ofan á kökuna og síðan er fallegt að skreyta einnig með ferskum blómum en því má þó sleppa.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert