Það er ánægjulegt að sjá smáframleiðendur landsins vaxa – en fyrirtækið „Minnsta kaffihúsið“, hefur tekið vaxtarkipp og kynnir nú nýja vöru sem hefur fengið nafnið „Súkkúla“.
Það er Rannveig Ásgeirsdóttir, frumkvöðull og eigandi fyrirtækisins sem segir í samtali að stöðug hugmyndavinna og þróun sé í gangi. Fyrir jólin kom á markað árstíðabundin vara sem voru örsmá piparkökuhús, en þau framleiða nú kræsingar í Eldstæðinu í Kópavogi. „Við ákváðum að taka stökkið með útileguvöru sem fékk nafnið „Súkkúla“ (súkkulaðikúla). Þetta eru tvær suðusúkkulaðikúlur fylltar með kakóefni ofan í ferðamáli, þú hellir einfaldlega heitri mjólk að eigin vali ofan í málið, hrærir í og nýtur þess að vera á þínu eigin minnsta kaffihúsi hvar sem er. Leiðbeiningar eru ofan á lokinu. Í málinu eru einnig sérinnpakkaðir sykurpúðar fyrir þá sem vilja bæta við upplifunina. Þetta er matarhandverk í takmörkuðu upplagi og mikil ást í framleiðslunni“ segir Rannveig. Hægt er að nálgast Súkkúlu í Litlu Hönnunarbúðinni í Strandgötu Hafnarfirði sem og í Matarbúrinu í Krónunni á Selfossi.