Lasagna er einn af þessum réttum sem allir elska og er erfitt að klúðra. Hér er uppskrift frá Berglindi Hreiðars á Gotteri.is sem ætti að slá í gegn á hverju heimili.
Sjálf segir Berglind að sér finnist gott að gera stóra uppskrift svo hægt sé að hafa afgang í matinn daginn eftir. „Að þessu sinni eldaði ég meira að segja svo mikið lasagna að það var hér í matinn þrjá daga í röð og dætur mínar spurðu síðan á fjórða degi hvort það væri ekki lengur til lasagna og þá hló ég nú upphátt, hahaha! Það voru hins vegar hin bestu meðmæli svo ykkur er klárlega óhætt að gera stóra uppskrift! Síðan má auðvitað líka alltaf frysta lasagna, hvort sem er í heilu eða bitum, til að eiga og hita upp þegar lítill tími gefst fyrir eldamennsku eða til að grípa með í nesti.“
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Lasagna
- 1 kg nautahakk
- 1 laukur
- 2 hvítlauksrif
- 900 g pastasósa
- lasagnaplötur
- oregano
- salt og pipar eftir smekk
- hvít ostasósa (sjá uppskrift að neðan)
- rifinn ostur (mozzarella og cheddar í bland)
Aðferð:
- Saxið laukinn smátt og rífið niður hvítlaukinn.
- Steikið hakkið á pönnu ásamt báðum tegundum af lauk, kryddið til með salti, pipar og oregano.
- Hellið næst pastasósu yfir hakkið og leyfið að malla við vægan hita á meðan þið útbúið hvítu sósuna.
- Raðið saman í fat hakki, lasagnaplötum og hvítri sósu og endurtakið x 3 nema setjið svo fjórðu umferðina af hakki efst og vel af rifnum osti yfir allt saman.
- Bakið við 180°C í um 30 mínútur og leyfið aðeins að standa áður en þið skerið niður.
Hvít sósa
- 170 g rifinn ostur (mozzarella og cheddar í bland)
- 140 g rjómaostur
- 200 ml nýmjólk
- 1 tsk. salt
Aðferð:
- Setjið allt saman í pott og hrærið þar til osturinn hefur bráðnað.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir