Hér mætti segja að um hamingjupillu sé að ræða í húsgagnaformi – því nýtt eldhúsborð er væntanlegt frá HAY, og það er svo sannarlega litríkt ef marka má fyrstu myndir. Þessi nýja vörulína er samstarfsverkefni HAY og belgíska hönnunartvíeykisins Muller Van Severen. Þau tóku höndum saman á fjarfundum á meðan kórónuveiran geisaði hvað harðast, enda óþarfi að setja nokkuð á pásu ef tæknin leyfir okkur annað.
Nýtt borðstofuborð, lampar, vasar, kertastjakar og fleira til í glaðlegum litum sem færa leikinn inn í rýmið. Litanotkun er eitt af aðalsmerkjum Muller Van Severen, sem nota almennt mikið af bláu, grænu, rauðu og krómi í hönnun sinni. Þau hafa til að mynda hannað eldhús fyrir Reform sem einkennist af rauðu, grænu, ljósbláu, beige og krómi – og líkist einna helst heimsókn í tívolí. Alls ekki fyrir alla, en á engu að síður rétt á sér. Fyrstu vörur byrja að rata í verslanir um miðjan ágústmánuð, það er því til margs að hlakka með haustinu.