Eitt vinsælasta íslenska vörumerki landsins er kemur að fallegri hönnun fyrir eldhúsið og heimilið er án efa FÓLK Reykjavík. Þau hafa opnað nýja pop-up-verslun og fagna miðsumri með partíi næstkomandi fimmtudag, 1. júlí.
FÓLK Reykjavík opnaði pop-up-verslun og nýtt sýningarrými á Hafnartorgi 19. maí síðastliðinn. Opnunin hélst í hendur við frumsýningu á átta nýjum vörulínum sem unnar eru í samstarfi við íslenska hönnuði og eru væntanlegar í verslanir með haustinu. En vörumerkið stendur einmitt á bak við hillurnar Urban Nomad, sem landinn hefur verið að raða á veggina í eldhúsunum heima og víðar – enda veisla fyrir augað, þar sem formfegurðin leynir sér ekki í hönnuninni.
Mikil vöruþróun hefur átt sér stað hjá FÓLKi síðastliðið ár og er breidd vöruúrvals merkisins af íslenskri hönnun alltaf að aukast. Allar vörulínur merkisins eru fáanlegar í pop-up-versluninni og einnig eru frumgerðir væntanlegra vara þar til sýnis. Við hér á Matarvefnum höfum mikið dálæti á nýjum blómavösum og skálum sem henta einstaklega vel undir ávexti, helgarsnakkið eða smákökurnar þegar við náum svo langt í dagatalinu.
Á HönnunarMars í maí kynnti merkið meðal annars glervasa, veggljós úr marmara, gólflampa úr gegnheilum viði, vegghillu úr efni sem unnið er úr endurunnum textíl og margnota heimilispúða úr loftpúðum úr bílum. FÓLK vinnur með sex íslenskum hönnuðum og hönnunarteymum – Theodóru Alfreðsdóttur, Tinnu Gunnarsdóttur, Studio Fléttu, Rögnu Ragnarsdóttur, Ólínu Rögnudóttur og Jóni Helga Hólmgeirssyni.
Fimmtudaginn 1. júlí verður sérstakt sumarpartí í verslun FÓLKs við Hafnartorg frá kl. 16-18, þar sem boðið verður upp á léttar veitingar og afslátt af völdum vörum. Annars er almennur afgreiðslutími í sumar mánudaga-föstudaga 11-17 og laugardaga frá 12-16.