Uppskriftin að einum frægasta kjúklingarétti heims

Ljósmynd/Sirrý - Salt eldhús

Sirrý í Salt eldhúsi er mikill meistari í eldhúsinu og hér galdrar hún fram fyrir okkur hinn víðfræga spænska rétt, Arroz con pollo eða kjúkling með hrísgrjónum.

„Þessi spánski réttur Arros con pollo (borið fram „arros kon pojo“ með áherslu á r-in) hefur verið vinsæll réttur í fjölskyldunni í mörg ár og krakkarnir okkar haldið áfram að elda hann heima hjá sér eftir að þau eignuðust sín eigin heimili. Þetta er nokkuð stór uppskrift en afgangurinn er góður og tilvalinn í nestispakkann. Dugar fyrir sex svanga.“

Arroz con pollo

  • 8-10 kjúklingabitar, best að nota efri læri með skinni á
  • 3 msk. olía
  • 1 dl hveiti
  • salt og pipar
  • 1 laukur, saxaður
  • 3 hvítlauksgeirar saxaðir
  • 320 g (4 dl) arborio-hrísgrjón, þessi stuttu
  • 1 tsk. paprika
  • 1/4 tsk chiliflögur
  • 1/4 tsk. saffran (má sleppa)
  • 6 1/2 dl vatn 
  • 1 kjúklingasoðteningur 
  • 1 dós tómatar, saxaðir
  • 1 msk. tómatpúra 
Aðferð:
  1. Veltið kjúklingabitunum upp úr hveiti og brúnið þá á báðum hliðum, saltið og piprið. Ég krydda á þessu stigi oft með einhverju eins og papriku eða góðu kjúklingakryddi, bara einhverju sem ég á í skúffunni.
  2. Setjið bitana á disk og geymið. Fjarlægið fituna af pönnunni en skiljið 2-3 msk eftir til að steikja laukinn upp úr.
  3. Steikið laukinn þar til hann fer að verða glær og gullinn, bætið hvítlauk út í og steikið aðeins áfram.
  4. Bætið hrísgrjónum út í ásamt þurrkryddi og steikið áfram í 2 mín.
  5. Hellið nú vatni, kjúklingasoðteningi og tómötum ásamt safanum úr dósinni og tómatpúrru á pönnuna, hrærið allt vel saman, saltið og piprið.
  6. Raðið kjúklingabitunum ofan á, setjið lok eða álpappír ofan á pönnuna og látið þetta malla við meðalhita í 25-30 mín.
  7. Þið getið smakkað grjónin eftir 25 mín. og ef þau eru með harðan kjarna þurfa þau að malla 5 mín lengur.
  8. Takið lokið af og ef enn er mikill vökvi í pottinum er gott að látið rjúka úr honum í 5 mín.
  9. Ef þið viljið fá svolítið grillaða skorpu á kjúllann er sniðugt að setja pönnuna aðeins undir heitt grill, ég geri það stundum. 

*Saffran fæst í Fiska.is á Nýbýlavegi

Ljósmynd/Sirrý - Salt eldhús
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert