Spretthlauparinn Allyson Felix var að tryggja sér sæti á fimmtu Ólympíuleikana og segir mataræðið skipta höfuðmáli fyrir velgengni – en hún er sælkeri inn við beinið og elskar að baka.
Hin 35 ára gamla Allyson, nífaldur ólympíuverðlaunahafi, æfir í fimm klukkustundir á dag – og þarf þar af leiðandi að borða mikið og vel. Hún sagði í samtali við Eating Well að morgunmaturinn sé í léttari kantinum, jógúrt og granóla. Á leiðinni í ræktina fær hún sér acai-skál eða einhverja aðra tegund af smoothie. Hádegismaturinn einkennist af salati með próteini og ávöxtum og á kvöldin borðar hún mikið af fiskmeti, brúnum grjónum eða sætum kartöflum og grænmeti – þar er aspas og kúrbítur í miklu uppáhaldi.
Leikarnir í Tókýó 2021 verða þeir fyrstu síðan Allyson varð mamma – en hún á tveggja ára dóttur. Hún segist elska að elda fyrir fjölskylduna og vini þegar hún fær tíma og þar er bakstur einn af hennar duldu hæfileikum – en fjölskyldan sækist sérstaklega í kanelsnúðana hennar sem þykja þeir bestu. Og þegar hún vill gera vel við sig eftir annasaman dag þá fær hún sér vínglas, og á sumrin velur hún sér sauvignon blanc.