Það getur verið tímafrekt, flókið og stundum subbulegt að búa til kokteila þegar allt flýtur um allt, en löngunin er engu að síður fyrir hendi og þá kemur þessi aðferð til sögunnar. Hún er kannski örlítið kjánaleg en virkar engu að síður.
Þessi útgáfa er kölluð „Corona Sunrise“ og er lítið snjallt drykkjartrix sem breytir venjulegum Corona-flöskubjór í dýrindis sumarkokteil. Aðferðin er einkar vinsæl ytra og hefur verið deilt víðsvegar um samfélagsmiðla. Hún mun eflaust lifa út sumarið, í það minnsta á meðan fólk raðar í sig svalandi drykkjum í hitanum.
Þú byrjar á því að taka góðan sopa af bjórnum til að búa til rými fyrir innihaldsefni. Því næst hellirðu skvettu af tequila, appelsínusafa og grenadine ofan í flöskuna. Kreistir lime út í og útkoman verður besti og frísklegasti sumarkokteill sem þú hefur smakkað. Við erum þó nokkuð viss um að útkoman verði ekkert síður sóðaleg en að hrista saman kokteil á gamla mátann – þó þess virði að prófa.