Hér er á ferðinni ekta „street food“-matur og það er leikur einn að útbúa þennan rétt heima hjá sér og koma gestum skemmtilega á óvart með útkomunni. Um er að ræða hægeldað nautakjöt þar sem sojasósan leikur stórt hlutverk. Kjötið er síðan rifið niður og sett í naanbrauð ásamt chilimajónesi, osti og grænmeti. Það er hægt að nota hvaða nautakjöt sem er, hér er notað ungnautainnlæri en það er hægt að nota ribeye, snitsel eða annað, hægeldunin gerir allt kjöt svo meyrt og gott.
Uppskriftin kemur frá Berglindi Hreiðarsdóttur á Gotteri.is en hún hefur gengið kvenna á milli í vinahópi hennar. Upphaflega útgáfan er frá sjálfum Gordon Ramsay en hefur tekið smá breytingum í meðförum vinkvennanna og þykir nú betri ef eitthvað er.
Hægeldað nautakjöt í naan
Uppskrift dugar í um 10-12 lítil naanbrauð eða fyrir 5-6 manns
Kjöt og marinering
- 700-800 g ungnautakjöt
- 200 ml Kikkoman-sojasósa
- 200 ml ólífuolía
- 2 x lime (safinn)
- 150 g púðursykur
- 2 x ferskt chili (saxað)
- 1 búnt af ferskum kóríander (saxað)
Aðferð:
- Útbúið sojamarineringuna með því að blanda öllum ofangreindum hráefnum saman í skál (fyrir utan kjötið auðvitað).
- Takið rúmlega fjórðung til hliðar og setjið í skál inn í ísskáp til að bera fram með réttinum þegar hann er tilbúinn.
- Steikið kjötið örstutt við háan hita til að loka því, hellið restinni af marineringunni yfir, leyfið suðunni að koma upp og lækkið þá hitann vel, setjið lok á pönnuna/pottinn og leyfið að hægeldast þannig í 5-6 klukkustundir. Gott er að snúa kjötinu 2-3 sinnum á meðan til að allar hliðar liggi jafn lengi í marineringunni þar sem hún hylur kjötið ekki að fullu.
Chilimajónes
- 200 g Hellmann's-majónes
- 40 g sambal oelek
- 1 tsk. limesafi
Aðferð:
- Allt hrært vel saman í skál og geymt í kæli fram að notkun. Einnig er hægt að nota tilbúið chilimajónes frá Hellmann's.
Annað meðlæti
- lítil naanbrauð (10-12 stykki)
- kínakál (saxað)
- rauðlaukur (skorinn í sneiðar)
- ferskur kóríander
- rifinn cheddarostur
Samsetning
- Setjið chilimajónes í botninn á brauðinu ásamt káli og lauk.
- Næst kemur rifinn ostur og kjöt.
- Gott er að setja smá af sojamarineringunni yfir kjötið í lokin ásamt vel af ferskum kóríander. Einnig má setja sneiðar af fersku chili.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir