Grillaður silungur með fetaosti

Ljósmynd/Hanna Þóra

Rétt upp hönd þið sem elskið fisk og fetaost! Hér er æðisleg uppskrift úr smiðju keramikgyðjunnar Hönnu sem eldar hreint dásamlegan mat.

Grillaður silungur með fetaosti

Á góðum sumardegi er gott að fá sér grillaðan silung. Skemmtilegast við þennan rétt er hvað hann er ótrúlega fljótlegur og góður. Mér finnst kalda sósan góð og ekki verra að hún er líka fljótleg og einföld.

  • Silungsflök
  • Fetaostur – best að nota bút af fetakubbi sem liggur ekki í olíu. Ath. það má alveg sleppa fetaostinum þar sem silungurinn er líka góður án hans
  • Sítróna – skorin í báta
  • Salt og pipar

Köld sósa

Philadelphia-rjómaostur með graslauk (ef til er graslaukur á heimilinu er um að gera að saxa hann og blanda honum saman við hreinan rjómaost)

  • Sýrður rjómi
  • Majónes

Ef þú ert í extra góðu skapi er gott að setja ögn af sojasósu, nokkra dropa af tabascosósu, pipar og salt

Ath. hlutföllin eru svolítið frjálsleg … ég er með helming af sýrðum rjóma og rjómaosti en ½ af majónesi

Salat – hugmynd

  • Salatblöð
  • Agúrka
  • Granatepli – ef til eru
  • Möndluflögur – ristaðar
  • Græn vínber – mér finnst þau passa sérstaklega vel með silungnum
  • Skvetta af góðri olíu – ekki nauðsynlegt

Verklýsing

  1. Silungurinn lagður á fat sem þolir að fara á grillið – grillið hitað
  2. Sítrónubátur kreistur yfir silunginn og fetaostur mulinn yfir fiskinn. Salti og pipar stráð yfir – fatið sett á grillið og látið vera í 10 mínútur. Ath. þeir sem vilja hafa fiskinn léttsteiktan ættu að hafa hann í aðeins færri mínútur
  3. Sósa: Hráefnum hrært saman
  4. Salat blandað saman

Meðlæti: Kartöflur, hrísgrjón eða t.d. brokkolísalat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert