Hér er réttur fyrir þá sem vilja prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu – dúnmjúkar bao-bollur með hægelduðum rifnum grís, sesamsalati og japönsku majó. Það er Snorri hjá Mat og myndum sem býður okkur í þessa girnilegu veislu.
Rétturinn fyrir þá sem vilja prófa eitthvað nýtt (fyrir 2)
- grísahnakki í sneiðum, 400 g
- baobrauð, 6 stk / fást frosin hjá Fiska á Nýbýlavegi
- rauðkál, 150 g
- kóríander, 5 g
- agúrka, 100 g
- ristuð sesamfræ, 1 msk
- radísur, 2 stk
- japanskt majó, 60 ml
- kewpie-sesamdresssing, 45 ml / fæst í Melabúðinni
- gochujang, 1 msk
- sojasósa, 1 msk
- engifermauk eða rifinn ferskur engifer, 1 tsk
- hvítlaukur, 1 rif
- kjúklingakraftur, 1 tsk
- hrísgrjónaedik, 1 tsk
Aðferð:
- Stillið ofn á 150°C með yfir- og undirhita.
- Hrærið gochujang saman við sojasósu, engifermauk, 1 pressað hvítlauksrif, kjúklingakraft og hrísgrjónaedik.
- Nuddið gochujangblöndunni vel á kjötið, leggið kjötið svo í lítið eldfast mót og hellið botnfylli af vatni (ekki of mikið) í mótið. Bætið restinni af gochujangblöndunni (ef það var afgangur) út í vatnið og hyljið mótið því næst með álpappír.
- Bakið kjötið í miðjum ofni í 2-2,5 klst eða þar til það losnar auðveldlega í sundur þegar togað er í það með tveimur göfflum. Gott er að kíkja á kjötið þegar tíminn er hálfnaður og bæta við ögn af vatni ef þarf.
- Notið tvo gaffla til þess að tæta kjötið niður í eldfasta mótinu og látið liggja í nokkrar mín. í krydduðum vökvanum. Smakkið til með salti ef þarf.
- Hitið baobollurnar eftir leiðbeiningum á umbúðum eða hitið í um 30 sek. í örbylgjuofni þar til þær eru heitar og mjúkar.
- Sneiðið rauðkál eins þunnt og mögulegt er, helst með mandólíni (farið varlega!). Saxið kóríander. Setjið rauðkál, kóríander og sesamdressingu saman í skál og blandið vel saman.
- Sneiðið agúrku og radísur í þunnar sneiðar. Raðið sesamsalati, kjöti, japönsku majó og sesamfræjum í brauðin.