Keramik-sjarmörinn Christian Bitz framleiðir vörur sem styðja við fallegt málefni, og væntanlegar með haustinu eru nýjar könnur sem fagurkerar mega ekki láta fram hjá sér fara – en þær eru hluti af málefninu.
Kusintha er heitið á vörum undir framleiðslu BITZ, þar sem vörurnar eru ýmist úr hefðbundnu gleri eða endurunnu gleri í fallegum litum sem smellpassa við aðrar vörur BITZ. Þessar tilteknu vörur eru samstarfsverkefni sem hófst árið 2018 hjá Christian Bitz og Lisette Rützou. Markmiðið er að gefa 20 milljónir íslenskra króna yfir fimm ára tímabil með hagnaði á sölu á vörum úr Kusintha-línunni.
Orðið „kusintha“ þýðir breytingar á chichewa, sem talað er í Malaví og tilgangurinn með verkefninu er einmitt að breyta – með því að koma á fót brunnum með hreinu drykkjarvatni, opna leikskóla og gefa krökkum möguleika á skólagöngu í fátækustu ríkjum heims. Vatn er jú lífsnauðsynlegt og því er verkefnið fallegt og afar mikilvægt. Það eru því miður ekki allir svo heppnir að geta skrúfað frá krananum og drukkið beint af stút eins og við hér á landi.