Hinn fullkomni haustréttur

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hér erum við með dásamlega uppskrift að hægelduðu nautakjöti í dýrindis sósu með alvöru kartöflumús. Hinn fullkomni haustréttur eins og einhver sagði en það er hún Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn að þessari uppskrift sem er algjört „möst“.

Hægeldað nautakjöt í rauðvínssósu

Fyrir 4-5 manns

Nautakjöt og sósa

  • Um 1 kg nauta „chuck“ eða annað svipað nautakjöt
  • 1 laukur
  • 3 gulrætur
  • 3 hvítlauksrif
  • 350 ml Muga rauðvín
  • 500 ml nautasoð
  • 4 timiangreinar
  • 3 lárviðarlauf
  • Ólífuolía til steikingar
  • Salt og pipar
  1. Hitið ofninn í 160°C.
  2. Byrjið á því að brúna kjötið upp úr olíu á öllum hliðum, kryddið með salti og pipar og leggið síðan til hliðar.
  3. Skerið gulrætur niður í sneiðar, saxið laukinn gróft og rífið niður hvítlauksrifin. Bætið olíu á pönnuna sem kjötið var á og steikið við meðalháan hita þar til grænmetið fer að mýkjast aðeins, í um 5 mínútur.
  4. Takið grænmetið þá af pönnunni, hækkið hitann og hellið rauðvíninu á pönnuna. Leyfið því að sjóða í um eina mínútu og bætið nautasoði, timian og lárviðarlaufum í pottinn ásamt 2 tsk. af salti.
  5. Setjið þá grænmetið og kjötið aftur í pottinn, lokið á og inn í ofn í þrjár klukkustundir, snúið kjötinu einu sinni á því tímabili og sjóðið kartöflurnar fyrir kartöflumúsina á síðasta klukkutímanum.
  6. Að þremur klukkustundum liðnum má taka kjötið upp úr og geyma undir álpappír. Næst má veiða lárviðarlaufin og timiangreinarnar úr pottinum, fleygja þeim og síðan mauka laukinn og gulræturnar í soðinu með töfrasprota þar til allir kekkir eru farnir.
  7. Náið suðunni þá upp í sósunni og leyfið henni síðan að malla í um 5-10 mínútur og smakkið hana til með salti og pipar eins og ykkur þykir þurfa. Sósan þykknar við að fá að malla smá stund en ef þið viljið hana enn þykkari getið þið pískað smá sósujafnara saman við.
  8. Þá má kjötið fara aftur í pottinn/sósuna við vægan hita á meðan þið útbúið kartöflumúsina.

Kartöflumús uppskrift

  • 1,2 kg soðnar kartöflur
  • 25 g smjör
  • 300 ml nýmjólk
  • 1 msk. sykur
  • ½ tsk. salt
  1. Flysjið kartöflurnar og setjið í pott við meðalháan hita.
  2. Hellið mjólk út á ásamt öðrum hráefnum og stappið með kartöflustöppu þar til þið hafið náð þeirri áferð sem þið óskið.
  3. Þið getið sett aðeins meiri/minni mjólk eftir því hversu þykka þið viljið hafa kartöflumúsina.
  4. Berið fram með hægelduðu nautakjöti og vel af rauðvínssósu úr pottinum.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert