Konu nokkurri í Taílandi brá heldur betur í brún, er fíll í fullri stærð braust með hausinn inn í mitt eldhúsið hennar á meðan hún svaf.
Konan vaknaði við mikinn hávaða er fíllinn stakk hausnum í gat sem fyrir var á húsinu að utan og stækkaði gatið augljóslega mun meira fyrir vikið, þar sem hausinn rakst í gegn. En gatið sem fyrir var hafði ekki verið lagfært þegar annar fíll gerði slíkt hið sama mánuði áður.
„Ég hef séð fíla reika um bæinn okkar í leit að mat síðan ég var ung,“ sagði Ratchadawan Puengprasoppon, sem býr í Hua Hin-hverfinu í vesturhluta Prachuap Khiri Khan-héraðs. „En þetta er í fyrsta skipti sem þeir skemma í raun húsið mitt“, segir hún í samtali.
Konan sagðist ekki hafa haft neinn mat í eldhúsinu fyrir utan salt. Og þjóðgarðadeildin þar í landi taldi að fíllinn kæmi frá nálægum þjóðgarði og hefði runnið á lyktina af saltinu. Fílar eru jurtaætur og þurfa steinefni úr söltuðum mat.
Fyrr í sumar vakti fílahjörð í Kína heimsathygli er hún slapp frá friðlandi og gekk tæplega 500 kílómetra eftir þjóðvegi og túnum í átt að stórborginni Kunming. Þetta er nýjasta dæmið um að fílar yfirgefi heimili sín í leit að mat og plássi, þar sem hvort tveggja fer að verða af skornum skammti að sökum hegðunar manna.