Það er sannarlega farið að kólna í veðri og þá er gott að ylja sér við súkkulaðibolla. En þetta gæti flokkast undir að vera ein af þessum skrítnu fréttum sem rata inn á matarvefinn - þegar við segjum ykkur frá svínslegu súkkulaði frá stórmarkaðsrisanum M&S sem er að gera allt vitlaust. Hér hefur hið þekkta sælgætissvín, Percy Pig, fengið nýtt hlutverk sem bleikt súkkulaði.
Snilldin við þetta súkkulaði, er að þú setur það ofan í glasið og hellir heitri mjólk yfir svo að hún bræðir súkkulaðið sem breytist í fallegan drykk. Og það er ekki allt! Því í hverjum „haus“ má finna litla sykurpúða sem fljóta í heitri súkkulaðimjólkinni þegar skelin hefur bráðnað. Það væri frábært að sjá einhvern af okkar flinku súkkulaðiframleiðendum hér heima útbúa eitthvað svipað fyrir okkur hér heima til að kæta mannskapinn eftir sleðaferð.