Formenn stjórnmálaflokka halda áfram að bjóða upp á girnilegar uppskriftir sem endurspegla hugmyndafræði þeirra og hér er það Ingibjörg Fanney Pálsdóttir hjá Frjálslynda lýðræðisflokknum sem býður upp á grænmetissamloku með túnfisksalati þar sem flokkurinn setur heilsuna í fyrsta sætið.
Uppskriftir formannanna eru hluti af Kjóstu rétt hjá Heimkaup sem er með því skemmtilegra sem sést hefur lengi.
Keppnis-túnfisksalat Lýðræðisflokksins
Hráefni
- 1 dós túnfiskur í olíu
- ½ rauðlaukur smátt skorinn
- ½ gul paprika
- 4 egg
- 3 msk Heinz-majónes
- 3 msk. hreinn Philadelphia-rjómaostur
- salt og pipar
- agúrka hringskorin í sneiðar
- kokteiltómatar
Aðferð
Byrjum á að gera túnfisksalat:
- Sjóðið eggin þar til þau eru harðsoðin (8 mín) og kælið þau svo niður.
- Hellið allri aukaolíu af túnfiskinum og setjið hann svo í skál, tætið hann niður svo það séu engir kekkir.
- Skerið rauðlauk og papriku mjög smátt. Bætið því út í skálina ásamt rjómaosti og blandið saman. Skerið eggin smátt og blandið saman við.
- Setjið því næst majónes og blandið saman. Kryddið með salti og pipar.
- Skerið gúrku í þykkar sneiðar, hringlaga.
- Setjið dálítið af salatinu ofan á sneiðina.
- Skerið tómata í helminga og setjið einn helming ofan á hverja sneið.
- Gaman að skreyta með einhverju fallega grænu, s.s. steinselju eða dilli.
Kjósið og njótið!
Uppskrift frá Frjálslynda lýðræðisflokknum